„Fyrstu viðbrögð Anítu eru bara þau að hún er reið. En við getum ekkert annað sagt. Við eigum að höndla það og við tökum það bara sameiginlega á okkur. Hingað til höfum við haldið spennustiginu vel. En trúlega var spennustigið bara of hátt núna,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari Anítu Hinriksdóttur eftir úrslitahlaup hennar í 800 metra hlaupi kvenna á HM ungmenna í Eugene í Oregon.
„Hún fór fyrri hringinn mun hraðar en hún ætlaði. Hún hljóp hann á 56,33 sekúndum, sem er alltof alltof hratt. Við vorum búin að tala um það að hún myndi hlaupa hann á svona 59 sekúndum. Hugsanlega 58 sekúndum. Hún var sjálf á því að hún mætti alls ekki hlaupa undir 58 sekúndum. Þannig þetta var bara alltof hratt hjá henni,“ sagði Gunnar Páll, en Aníta kláraði ekki úrslitahlaupið í kvöld, eftir að hafa verið í forystu fyrstu 600 metrana eða svo.
„Svo er hún auðvitað alveg miður sín yfir því að hafa hætt. Maður á náttúrulega aldrei að hætta. En þetta er í fyrsta skipti sem hlutirnir ganga ekki alveg upp hjá henni, og það er að sjálfsögðu mikið erfiðara að eiga við það en þegar allt gengur. Henni líður mjög illa núna.“
„Við vorum náttúrulega allan tímann að stefna á verðlaunapall á þessu móti. Hún var komin í úrslit og þar eiga allir möguleika. Sú sem á langbesta heimstímann vann til dæmis ekki. Það er allt opið þegar kemur í svona úrslitahlaup. En rétt eftir hlaupið er hún bara brjáluð og reið út í sjálfa sig. En auðvitað verðum við í sameiningu að vinna úr þessu. Hingað til höfum við náð að vinna mjög vel með spennustigið,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari Anítu Hinriksdóttur við mbl.is.
„Æfingar hafa gengið mjög vel og hún er í mjög góðu líkamlegu formi. Hún hefur verið í formi til að bæta sig. Þannig auðvitað eru þetta mikil vonbrigði.“
Tveir íslenskir keppendur hafa enn ekki lokið keppni í Eugene. Sindri Hrafn Guðmundsson keppir í undanrásum í spjótkasti klukkan 19.45 í kvöld og Hilmar Örn Jónsson keppir svo í úrslitum í sleggjukasti klukkan 1.00 í kvöld.