Aníta í undanúrslit á sínum besta árstíma

Aníta Hinriksdóttir náði sínum besta tíma í ár í Zürich.
Aníta Hinriksdóttir náði sínum besta tíma í ár í Zürich.

Aníta Hinriksdóttir komst áfram í undanúrslit í 800 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Zürich, en keppni í undanriðlum fór fram í morgun. Hún endaði í fimmta sæti í sínum riðli en tími hennar kom henni engu að síður áfram.

Aníta hljóp í fyrsta riðli og tók forystuna strax í fyrstu beygju. Hún hélt henni allt fram á síðustu 200 metrana, en þá fóru fjórir keppendur fram úr á lokasprettinum og Aníta kom fimmta í mark á tímanum 2:02,12 mínútum sem er hennar besti tími í ár. Íslandsmet hennar er 2:00,49 mínútur.

Þrjár fyrstu í riðlunum fjórum komust áfram, og fjórar næstu með bestu tímana. Aníta þurfti því að bíða eftir hinum riðlunum þremur hvort hún kæmist áfram.

Næstu tveir riðlar voru töluvert hægari og enginn keppandi fyrir aftan fremstu þrjá sem áttu betri tíma en Aníta. Hún var því enn inni fyrir síðasta riðilinn og þurfti að treysta á að fimmta sætið í honum væri ekki betri en tími hennar var.

Það gekk upp og Aníta hleypur því í undanúrslitum á morgun.

Sjá líka:
„Erum margar jafnar“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert