„Erum margar jafnar“

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Eva Björk

Aníta Hinriksdóttir hefur í dag keppni á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í Zürich þegar hún keppir í undanrásum 800 metra hlaupsins klukkan rúmlega 10.

Aníta hljóp 400 metra hlaup í bikarkeppni frjálsíþróttasambandsins á Laugardalsvelli um helgina, sem henni fannst fín upphitun fyrir 800 metra hlaupið í Zürich. „Þetta gefur svona ákveðna tilfinningu að hlaupa 400 metra hlaup og bara skemmtilegt. Þannig að þetta var bara fínt,“ sagði Aníta þegar Morgunblaðið spjallaði við hana í Laugardalnum um helgina.

Aníta segist spennt fyrir EM í Zürich og að það sé fínt að fara á EM svona stuttu eftir HM ungmenna í Eugene í Bandaríkjunum þar sem hún keppti til úrslita í 800 metra hlaupi í síðasta mánuði. „Jú, ég er bara sátt með það. Ég er bara jákvæð fyrir þessu,“ sagði Aníta.

Verður góð reynsla

„Þetta verður bara góð reynsla fyrir mig. Svo veit ég að við erum mjög jafnar margar, þannig þetta verður gott tækifæri til að æfa sig og vonandi næ ég bara góðu hlaupi og fínum tíma,“ sagði Aníta um Evrópumótið í frjálsíþróttum sem er framundan í Sviss.

Aníta er ein fimm Íslendinga sem keppa á EM, spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir reyndi fyrir sér í gær og Hafdís Sigurðardóttir í langstökki. Hafdís keppir líka í 200 metra hlaupi á EM, en fjallað erum árangur Ásdísar og Hafdísar á EM í gær á síðu 1 í íþróttablaðinu í dag. Guðmundur Sverrisson mun svo keppa í spjótkasti á EM og Kári Steinn Karlsson í maraþoni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert