„Ég er ótrúlega ánægður með þetta. Það er mest að marka hvað þær hafa hlaupið best í ár og hún var með rúmlega tuttugasta besta tímann af öllum þar inn á mótið, svo þetta er virkilega gaman,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur, í samtali við Morgunblaðið í gær skömmu eftir að hlaupakonan unga komst áfram í undanúrslit 800 metra hlaups á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Zürich í Sviss.
Aníta keppti í fyrsta undanriðli af fjórum og leiddi hlaupið allt fram að lokakaflanum. Þá missti hún þær nokkrar fram úr sér og kom fimmta í mark á tímanum 2:02,12 mínútum, sem er hennar besti tími í ár. Þrjár efstu í hverjum riðli komust áfram og næstu fjórar með bestu tímana þar á eftir, og þar átti hún þriðja besta tímann og hleypur því í undanúrslitum í dag.
„Þetta voru millitímar eins og við lögðum upp með og hlaupið var mjög vel útfært. Þetta var hratt í lokin og hún stífnaði aðeins upp, en það er einmitt það sem við erum að vinna í að reyna að halda forminu betur í restina. En þetta var mikil barátta í lokin eins og sést á tímanum, þetta var svo hratt,“ sagði Gunnar Páll og segir það gríðarlega þýðingarmikið að komast áfram í undanúrslitin.
Sjá allt viðtalið við Gunnar Pál og meira um EM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag