Andri Mikaelsson tryggði Íslandsmeisturum Skautafélags Akureyrar sigur á Birninum í toppslag liðanna á Íslandsmótinu í íshokkí í Egilshöllinni í kvöld með gullmarki í framlengingu. Markið kom eftir þriggja mínútna leik, eftir sendingu hins þrautreynda Ingvars Jónssonar, 4:3.
SA Víkingar eru þá með 29 stig á toppnum, Björninn 23, SR 21 og Esja 11 stig en fjórtán umferðir hafa verið leiknar af 24.
Leikurinn var hörkuspennandi alveg frá byrjun og liðin skiptust á að sækja en það voru Bjarnarmenn sem komust yfir þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum með marki frá Oskars Valters. Á næstu fjórum mínútum náðu Víkingar hinsvegar að svara fyrir sig með tveimur mörkum frá þeim Ben DiMarco og Einari Valentine og með þessa forystu fóru fóru Víkingar inn í leikhléið, 1:2.
Björninn náði hinsvegar á stuttum kafla í annarri lotunni að jafna og komast yfir 3:2. Bæði mörkin átti spilandi þjálfari liðsins, Lars Foder, sem óðum er að komast í sitt fyrra form. Andri Már Mikaelsson jafnaði hinsvegar metin skömmu síðar fyrir Víkinga, 3:3.
Þriðja lotan var síðan markalaus og því framlengt uppá gullmark. Fljótlega í framlenginunni töldu Bjarnarmenn að Nicolas Antonoff hefði tryggt þeim aukastigið sem var í boði en eftir smá rekistefnu dæmdi dómari leiksins svo ekki vera. Andri Már Mikaelsson tryggði síðan Víkingum fyrrnefnt stig skömmu síðar.
Markaskorarinn Andri Már Mikalesson var ánægður með sigurinn. „Sterk liðsheild gaf okkur tvö mikilvæg stig þrátt fyrir eitthvað um veikindi og meiðsli. Það kom bara maður í mans stað eins og t.d Matthías (Már Stefánsson) sem spilaði sinn fyrsta leik og gerði vel“, sagði Andri.
Keppni í karlaflokki er nú komin í frí og verður ekki næst leikið fyrr en í janúar á komandi ári.
Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Lars Foder 2/0
Oskars Valters 1/0
Falur Birkir Guðnason 0/2
Birkir Árnason 0/1
Nicolas Antonoff 0/1
Refsingar Bjarnarins: 6 mínútur.
Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Andri Már Mikaelsson 2/0
Ben Di Marco 1/1
Einar Valentine 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/2
Jón B. Gíslason 0/1
Refsingar SA Víkinga: 10 mínútur