Vonn orðin sigursælust allra

Lindsey Vonn á verðlaunapallinum í dag.
Lindsey Vonn á verðlaunapallinum í dag. EPA

Bandaríska skíðadrottningin Lindsey Vonn er orðin sigursælasta konan í heimsbikarkeppni kvenna í alpagreinum frá upphafi eftir að hún sigraði á heimsbikarmóti í risasvigi í Cortina d'Ampezzo á Ítalíu í dag.

Þar með sigldi hún fram úr hinni austurrísku Anne Marie Moser-Pröll sem vann 62 heimsbikarmót á árunum 1970 til 1980. Vonn jafnaði metið í gær með því að sigra í bruni á sama stað.

„Þetta met þýðir að sjálfsögðu mikið fyrir mig - þetta er jú sögulegt í skíðaíþróttinni. Ég hélt að þetta ætti ekki eftir að takast en nú er ég hér og búin að vinna eitt mót enn, og get ekki annað sagt en að þetta sé draumi líkast," sagði Vonn við fréttamenn eftir sigurinn.

Hún hóf keppni á ný í vetur eftir langvarandi meiðsli og var ótrúlega fljót að komast á sigurbrautina á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert