Anítu Hinriksdóttur, hlaupakonu úr ÍR, hefur verið boðið til keppni á Sainsbury Grand Prix í Birmingham laugardaginn 21. febrúar.
Mótið er afar sterkt innanhússmót þar sem allt besta frjálsíþróttafólk Bretlandseyja, þar á meðal Evrópumethafinn Mo Farah, auk fjölda keppenda úr fremstu röð í heiminum, spreytir sig.
Á meðal andstæðinga Anítu í 800 metra hlaupinu er hin breska Jenny Meadows en þessi 33 ára gamli fyrrverandi Evrópumeistari hefur ein kvenna hlaupið undir 2 mínútum á þessu ári. Hún hljóp á 1:59,21 mínútu í lok janúar en til samanburðar er hið nýja Íslandsmet, og Evrópumet 19 ára og yngri, hjá Anítu frá því um helgina 2:01,77 mínútur.
„Það er mjög gaman að fá svona reynslu, af mjög sterku hlaupi, áður en kemur að EM í Prag í byrjun mars. Ef þetta boð hefði ekki komið hefði hún keppt á Norðurlandamótinu, og fyrir fram átt besta tímann þar, en það er bara enn betra að komast á svona sterkt mót,“ sagði Gunnar Páll. Hann segir það skýrast betur á næstu dögum hverjir andstæðingar Anítu verði aðrir en Meadows, en Bretar eru jafnan afar sterkir í millvegalengdahlaupum.
„Meadows var ein sú besta í heimi og átti að vera ein af stjörnum Breta á Ólympíuleikunum 2012 en meiddist. En hún er greinilega ekkert búin að missa móðinn,“ sagði Gunnar Páll, sem reiknar með mikilli stemningu í kringum 800 metra hlaupið í Birmingham enda er jafnan uppselt á mótið.