„Getum verið rosalega stolt“

Aníta Hinriksdóttir
Aníta Hinriksdóttir mbl.is/Eggert

Mbl.is náði tali af Gunnari Páli Jóakimssyi, þjálfara Anítu Hinriksdóttur, rétt í þessu og hann er að vonum ánægður með árangurinn á EM innanhúss í frjálsum í Prag enda eru fá dæmi um að íslenskir hlauparar komist í úrslit á stórmótum erlendis. 

„Ég held að við getum verið rosalega stolt af því að komast í úrslit. Þetta er þriðja stóra mótið innanhúss sem Aníta tekur þátt í á ferlinum og það er stór áfangi að komast í úrslit,“ sagði Gunnar og benti á að nokkrir sterkir hlauparar hafi ekki komist í úrslit. Jenny Meadows frá Bretlandi á besta tíma ársins en varð til að mynda aðeins fjórða í riðli Anítu í undanúrslitunum í dag en mun keppa í úrslitum þar sem sú rússneska var dæmd úr leik. Fleiri hlauparar sem hafa oft keppt í úrslitum á EM komust ekki í úrslitin og Gunnar nefndi Lenku Masná sem er á heimavelli. „Við töldum að sex til átta hlauparar ættu mesta möguleika á því að komast í úrslit og við erum því mjög kát með að vera inni.“

Varðandi undanúrslitahlaupið í dag þá bjóst Gunnar við því að Meadows myndi keyra upp hraðann og leiða hlaupið. Fyrst hún gerði það ekki þá leiddi Aníta lengst af. „Aníta reiknaði með því að Meadows myndi keyra vel. Aníta var því kannski aðeins of spennt og eyddi svolítið mikilli orku í byrjun. Baráttan í lokin var náttúrlega mikil og Büchel sem kom fyrst í mark er þekkt fyrir góða endaspretti. En fæstir reiknuðu með því að Meadows myndi ekki vera á meðal fyrstu þriggja,“ sagði Gunnar og kaus að tjá sig ekki sérstaklega um pústrana sem urðu á endasprettinum þar sem hann sá atvikið ekki vel á leikvanginum og hefur ekki séð sjónvarpsmyndir af hlaupinu. 

„Við höfum unnið dálítið í því að halda stöðunni betur síðustu 150 metrana. Hún lærir á hverju hlaupi og ég vona að það gangi ennþá betur á morgun að halda stíl og stöðu síðustu 150 metrana,“ útskýrði Gunnar.

Úrslitahlaupið fer fram kl 14:15 að íslenskum tíma á morgun og verður þá þriðji dagurinn í röð sem Aníta hleypur keppnishlaup. Gunnar segir hana vera aðeins stífa sem sé ofureðlilegt. Hlaupin tvo til þessa muni hafa einhver áhrif á alla keppendur í úrslitum en það sé nokkuð sem Aníta þurfi að venjast á stórmótum sem þessu. 

„Keppinautar hennar hafa oftar farið í gegnum stórmót og Aníta er eini unglingurinn í úrslitahlaupinu. Eitt af því sem við fáum út úr svona mótum er að Aníta verður sífellt sterkari í þessum aðstæðum. Hún hefur ekki farið áður í úrslit á stórmóti fullorðinna en hún er ekkert útkeyrð. Alls ekki,“ sagði Gunnar Páll ennfremur við mbl.is. 

Gunnar Páll Jóakimsson
Gunnar Páll Jóakimsson mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka