Nú er orðið ljóst hvaða fimm hlaupakonum Aníta Hinriksdóttir hleypur með í úrslitum 800 metra hlaupsins á EM innanhúss í frjálsum íþróttum en það fer fram kl. 14.15 á morgun.
Bretar kærðu hina rússnesku Anastasiu Bazdirevu sem hljóp með Anítu í fyrri undanúrslitariðlinum, en Bazdireva steig út fyrir brautina þegar hún kom sér fram úr Anítu undir lok hlaupsins. Kæran bar árangur og var Bazdireva dæmd úr keppni. Því færðist Aníta upp í 2. sæti riðilsins og átti hún næstbesta tímann í undanúrslitunum öllum, og hin breska Jenny Meadows færðist upp í 3. sæti og hleypur einnig í úrslitunum á morgun.
Selina Büchel frá Sviss kom fyrst í mark í riðli Anítu. Úr seinni undanúrslitariðlinum komust áfram þær Natalija Lupu frá Úkraínu, Joanna Józwik frá Póllandi og Jekaterina Poistogova frá Rússlandi. Poistogova hljóp einmitt með Anítu í undanrásunum í gær og kom á undan í mark.
Aníta er 19 ára gömul og langyngst þeirra sem keppa í úrslitunum. Evrópumet unglinga, og Íslandsmet hennar, er 2:01,56 mínútur og setti hún það í gær. Hér má sjá yfirlit yfir andstæðinga Anítu á morgun:
Selina Büchel. 23 ára frá Sviss. Komst í úrslit á HM innanhúss í fyrra og var nálægt verðlaunasæti. Hefur best hlaupið á 2:00,93 mínútum á ferlinum, en 2:01,87 í ár.
Jenny Meadows. 33 ára frá Bretlandi. Vann Anítu á móti í Bretlandi fyrir skömmu. Reynslumikil og hefur náð sér vel á strik eftir að hafa slitið hásin í desember 2011 og misst af Ólympíuleikunum á heimavelli í London. Varð Evrópumeistari innanhúss 2011 og á besta tíma ársins sem er 1:59,21 mínúta.
Natalija Lupu. 27 ára frá Úkraínu. Ríkjandi Evrópumeistari frá 2013. Féll á lyfjaprófi á HM innanhúss í fyrra og fékk níu mánaða bann sem lauk í janúar. Hefur best hlaupið á 1:59,67 mínútu og 2:02,18 í ár.
Joanna Józwik. 24 ára frá Póllandi. Fékk brons á EM utanhúss í fyrra þegar hún rauf tveggja mínútna múrinn í fyrsta sinn. Hefur best hlaupið á 2:00,01 mínútu innanhúss og gerði það fyrr í vetur.
Jekaterina Poistogova. 24 ára frá Rússlandi. Fékk brons á Ólympíuleikunum 2012. Hefur best hlaupið á 2:00,73 mínútum innanhúss. Hafði betur gegn Anítu í undanrásunum en þær komust báðar beint áfram úr sínum riðli.