Aníta Hinriksdóttir hafnaði í 5. sæti í 800 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu innanhúss í Prag í dag. Aníta hafði forystuna lengi vel í hlaupinu.
Aníta var fremst þar til að kom að lokahringnum en þá komst Selina Büchel fram úr henni og Büchel fagnaði að lokum sigri. Natalija Lupu frá Úkraínu náði fram úr Anítu þegar um 100 metrar voru eftir og á lokasprettinum komust þær Jekaterina Poistogova og Joanna Józwik einnig fram fyrir Anítu sem kom því síðust í mark. Árangurinn er engu að síður stórkostlegur og sá langbesti sem Ísland hefur náð í mörg ár.
Aníta hljóp á 2:02,74 mínútum en Íslandsmet hennar, og Evrópumet unglinga, frá því í undanrásum er 2:01,56 mínútur.
Sigurtími Büchel er 2:01,95 mínútur en hún var sjónarmun á undan Poistogovu sem hljóp á 2:01,99 mínútum. Lupu kom í mark á 2:02,25 mínútum og Józwik á 2:02,45 mínútum.
Jenny Meadows frá Bretlandi átti að vera sjötti keppandi úrslitahlaupsins en varð að hætta við þátttöku vegna veikinda.