Stefnan sett á HM í Peking

Aníta Hinriksdóttir
Aníta Hinriksdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að hafa upplifað það í fyrsta sinn að hlaupa úrslitahlaup á stórmóti í flokki fullorðinna um helgina hallast Aníta Hinriksdóttir og einnig Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari hennar, að því að hún setji stefnuna á HM utanhúss sem fram fer í Peking í Kína í lok ágúst. Þau höfðu áður verið efins um að rétt væri að fara á HM en Gunnar Páll segir reynsluna af hverju stórmóti dýrmæta.

„Ef Aníta nær lágmarkinu þá erum við svona frekar komin á það að fara á HM. Þá erum við svolítið að hugsa til þessa móts núna þar sem við sjáum hvað reynslan er mikilvæg. Hvernig sem gengur þá þarf hún mót þar sem hún getur keppt í þessum taktísku hlaupum,“ sagði Gunnar Páll. Það er reyndar síður en svo auðvelt að ná HM-lágmarkinu en það er 2:01,00 mínútur. Aníta hefur einu sinni hlaupið undir þeim tíma en það var þegar hún setti Íslandsmet sitt (2:00,49 mínútur) í Mannheim í Þýskalandi sumarið 2013.

„Við höfum aðeins miklað það fyrir okkur að fara á HM enda er hún enn í menntaskóla og við höfum ekki tekið neina ákvörðun ennþá enda er hún ekki búin að ná lágmarkinu, en ég er frekar á því að hún fari,“ sagði Gunnar Páll.

Sjá allt viðtalið við Gunnar Pál í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert