SR-ingar eru ekki kátir eftir að hafa misst tvo leikmenn úr leikmannahópi sínum með slæm höfuðmeiðsli í síðustu tveimur leikjum liðsins gegn SA í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí.
Saka þeir leikmenn SA um grófan leik og að þeir fari í tæklingar til að meiða andstæðinginn. Einnig er Íshokkísambandið gagnrýnt fyrir að taka ekki á málunum af nógu mikilli festu. Vilja SR-ingar að þeir sem valda öðrum höfuðmeiðslum verði refsað harðlega með leikbönnum til að stoppa slíkan leik.
Segja þeir að ef menn komist endalaust upp með þessi brot þá haldi menn bara áfram að stunda þau. Telja þeir að þessi stefna sambandsins, að aðhafast ekkert, sé íþróttinni ekki til framdráttar.
Í leiknum í kvöld var Robbie Sigurðsson borinn af velli og síðan fluttur á brott með sjúkrabíl. Telja menn hann hafa fengið heilahristing. Í gær var það Daníel S. Magnússon sem þurfti að hætta leik sökum höfuðhöggs. Telja menn víst að þeir tveir spili ekkert meira með liði SR í þeim leikjum sem eftir eru í úrslitakeppninni.
Var bæði leikmönnum og aðstoðarmönnum liðs SR heitt í hamsi inni í klefa og fengu allskyns ákúrur og leiðindaummæli um leikmenn SA að fara í loftið.
SR-ingar vilja meina að það séu fyrst og fremst liðsmenn SA sem spili gróft. Það sé varla tilviljun að menn meiðist ítrekað í leikjum gegn Akureyringum.