Thelma og Valgarð unnu fjölþrautina

Thelma Rut Hermannsdóttir.
Thelma Rut Hermannsdóttir. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Thelma Rut Hermannsdóttir og Valgarð Reinhardsson úr Gerplu urðu Íslandsmeistarar í fjölþraut í gær en þá fór fram fyrri hluti Íslandsmótsins í áhaldafimleikum í Laugabóli í Laugardal.

Thelma fékk 49,350 stig í fyrsta sætinu, Dominiqua Alma Belányi úr Ármanni varð önnur með 48,000 stig og Norma Dögg Róbertsdóttir úr Gerplu, meistarinn frá 2014, varð þriðja með 46,950 stig. Níu konur luku keppni í öllum greinum.

Þetta var sjötti sigur Thelmu og hún er þar með orðin sigursælust kvenna á mótinu frá upphafi en þær Sif Pálsdóttir og Berglind Pétursdóttir unnu titilinn fimm sinnum hvor á sínum tíma.

Valgarð fékk 79,400 stig í karlaflokki, Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni varð annar með 74,150 stig og Bjarki Ásgeirsson, meistarinn frá 2014, varð þriðji með 71,000 stig en sjö karlar luku keppni.

Í dag verður keppt til úrslita á einstökum áhöldum í Laugabóli og hefst keppnin 13.10 og lýkur um 15.50.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert