Akureyringar meistarar þriðja árið í röð

Skautafélag Akureyrar varði í kvöld Íslandsmeistaratitil sinn í karlaflokki í íshokkí. SA burstaði Skautafélag Reykjavíkur 7:0 í fimmta leik liðanna í úrslitarimmunni í Skautahöllinni í Laugardal. SA vann rimmuna 4:1 samtals. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. 

SR varð deildameistari en SA var töluvert sterkara í úrslitakeppninni. SA vann fyrsta leikinn í Reykjavík 4:0. SR svaraði með sigri eftir vítakeppni í öðrum leiknum. Næstu tveir leikir fóru fram á Akureyri og þar vann SA 3:1 og loks 4:1 í síðasta leik. 

60. mín: Leiknum er lokið með sigri SA 7:0. SA er Íslandsmeistari 2015. 

56. mín: Mark! Staðan er 7:0 fyrir SA. Rúnar F. Rúnarsson skoraði eftir frákast. Gat nú verið að hann næði að skora eitt. Hefur löngum verið markheppinn. Stoðsendingar áttu Jay LeBlanc og Sigurður Sigurðsson. 

55. mín: Staðan er 6:0 fyrir SA. Akureyringar eru farnir að bíða eftir verðlaunaafhendingunni. 

50. mín: Staðan er 6:0 fyrir SA. Jón Guðmundsson hefur varið mark SR frá því seint í 2. leikhluta og hefur haldið hreinu. Hann hljóp nú bara í skarðið þar sem varamarkvörður SR er erlendis með U-18 ára landsliðinu en Jón stendur sig vel. 

45. mín: Staðan er 6:0 fyrir SA. Eins og í hinum leikhlutunum tveimur þá sækja SR-ingar af krafti til að byrja með. Rett Vossler er hins vegar vandanum vaxinn í marki SA. 

42. mín: Staðan er 6:0 fyrir SA. Síðasti leikhlutinn er hafinn. 

40. mín: Staðan er 6:0 fyrir SA. Einungis síðasti leikhlutinn eftir. Formsatriði að ljúka þessum leik og þar með Íslandsmótinu. 

37. mín: Mark! Staðan er 6:0 fyrir SA. SR-ingar verða að stöðva blæðinguna. Þetta er engin leið fyrir deildameistarana að ljúka keppnistímabilinu. Stefán Hrafnsson skoraði úr skyndisókn eftir undirbúning frá Ben DiMarco og Ingþóri Árnasyni. 

36. mín: Mark! Staðan er 5:0 fyrir SA. Jón B. Gíslason bætti við fimmta markinu. Hver annar? Hefur átt þátt í fjórum mörkum í kvöld. Reyndi skot sem Ævar varði, náði pökknum vinstra megin við markið og kom honum í netið úr fremur þröngu færi. 

33. mín: Mark! Staðan er 4:0 fyrir SA. SR-ingar voru tveimur færri og það gat eiginlega bara endað á einn veg. Landsliðsfyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson komst á blað með marki af stuttu færi. Stoðsendingar áttu Stefán Hrafnsson og Ingþór Árnason. Þessi leikur gæti endað í stórum tölum ef SR-ingar taka sig ekki á. 

29. mín: Mark! Staðan er 3:0 fyrir SA. Meistararnir frá Akureyri láta kné fylgja kviði og einbeitingin fer minnkandi hjá SR-ingum. Jón Gísla hefur átt þátt í öllum mörkum Akureyringa. Hann kom pökknum á fyrirliðann Jóhann Már Leifsson sem afgreiddi pökkinn snyrtilega í netið. 

26. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir SA. Stefán Hrafnsson skoraði af stuttu færi eftir undirbúning Jóns B. Gíslasonar og Ingþórs Árnasonar. Tekst SR-ingum að vinna þennan mun upp? Akureyringar eru á góðri leið með að næla í fjórða sigurinn og þar með titilinn. 

24. mín: Annar leikhluti er hafinn. Staðan er 1:0 fyrir SA. SR-ingar fara illa með færin sín í kvöld. Vossler varði áðan frábærlega frá Kára Guðlaugssyni og skömmu síðar skaut Bjarki Jóhannsson framhjá úr ágætu færi. 

20. mín: Staðan er 1:0 fyrir SA. Fyrsta leikhluta er lokið. Hann var nokkuð opinn og fjörugur en slysalegt sjálfsmark skilur liðn að. Eins og staðan er núna verður bikarinn áfram fyrir norðan. 

18. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir SA. Sjálfsmark! Jón B. Gíslason þrumaði pökknum í battann fyrir aftan markið og fór þaðan beint fyrir framan mark SR. Þar kom Samuel Krakavar á ferðinni og hugðist grípa pökkinn en ekki vildi betur til en svo að hann sló pökkinn í eigið net. Ævar markvörður átti aldrei möguleika á því að bjarga. Afar slysalegt og spurning hvort þetta drepi stemninguna hjá SR.  

14. mín: Staðan er 0:0. SR-ingar hafa náð ágætum sóknum án þess þó að skora. Þeir verð að nýta marktækifærin ætli þeir sér að halda lífi í titilvonum sínum. Leikurinn í kvöld er þeirra síðasta tækifæri til að rétta hlut sinn. 

7. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn byrjar fjörlega. Bæði liðin hafa fengið fín færi en ekki tekist að nýta sér þau. Markverðir beggja liða búnir að stimpla sig inn í leikinn. 

1. mín: Leikurinn er hafinn. SR missir strax leikmann út í 2. mínútur á fyrstu mínútu. 

0. mín: SR er aðeins með fimmtán manna leikmannahóp í kvöld. Lykilmenn liðsins gætu því farið að þreytast þegar líður á leikinn. SR fær þó Miloslav Racansky aftur inn í hópinn sem er mikilvægt enda snjall leikmaður. 

0. mín: Robbie Sigurðsson og Daníel Steinþór Magnússon eru ekki í liði SR í kvöld vegna meiðsla sem þeir urðu fyrir í úrslitarimmunni. Þá er Andri Már Mikaelsson í tveggja leikja banni hjá SA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert