Eygló Ósk Gústafsdóttir var nú rétt í þessu að bæta eigið Íslandsmet í 200 metra baksundi þegar hún kom í mark á tímanum 2:09,36 mínútum á Íslandsmeistaramótinu í Laugardalslaug. Það er jafnframt bæting á hennar eigin Norðurlandameti.
Eygló hafði sett Íslandsmet í greininni á danska meistaramótinu á dögunum, þegar hún kom í mark á tímanum 2:09,86 mínútum og var það undir lágmarki inn á Ólympíuleika sem og heimsmeistaramótið í sumar. Fyrir helgina var Eygló í sjöunda sæti á heimslistanum og þetta ætti að færa hana þar enn ofar.
Önnur í sundinu var Íris Ósk Hilmarsdóttir og þriðja Eydís Ósk Kolbeinsdóttir.
Í karlaflokki varð Kristinn Þórarinsson Íslandsmeistari en hann kom í mark á tímanum 2:07,59 mínútum. Annar varð Bragi Snær Hallsson á tímanum 2:09,12 mínútum og þriðji varð Kolbeinn Hrafnkelsson á tímanum 2:11,20.
Þá setti Brynjólfur Óli Karlsson aldursflokkamet þegar hann kom í mark á tímanum 2:14,65 mínútum.