„Erfitt að berjast einhentur“

Manny Pacquiao segist ekki hafa getað beitt sér sem skyldi …
Manny Pacquiao segist ekki hafa getað beitt sér sem skyldi vegna meiðsla í hægri öxl. AFP

Manny Pacquiao íhugaði að hætta við að mæta Floyd Mayweather í hnefaleikabardaga þeirra sem fram fór í Las Vegas í nótt.

Pacquiao greindi frá því eftir bardagann að hann hefði glímt við meiðsli í hægri öxl síðustu vikur og að honum hefði verið meinað að fá bólgueyðandi sprautu í búningsklefanum rétt fyrir keppni. Ástæðan var sögð sú að Pacquiao skyldi ekki hafa látið vita af meiðslunum fyrr.

„Þetta er hluti af leiknum. Ég vil ekki vera með afsakanir og slíkt, en það er erfitt að berjast einhentur,“ sagði Pacquiao.

Þjálfarinn Freddie Roach sagði að til greina hefði komið að hætta alveg við bardagann en Mayweather gaf lítið fyrir allt tal um meiðsli andstæðings síns:

„Ef að hann hefði unnið þá hefði það eina í stöðunni fyrir mig verið að koma hingað og segjast hafa tapað fyrir betri manni. Ég var meiddur í báðum handleggjum og höndum en eins og ég hef sagt áður þá finn ég alltaf leið til að vinna,“ sagði Mayweather.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert