Kolbeinn Höður söðlar um

Fremsti spretthlaupari Íslands um þessar mundir, Kolbeinn Höður Gunnarsson, hefur ákveðið að skipta yfir í raðir FH og keppa fyrir félagið næstu árin. Hann skrifaði undir samning við félagið í kvöld í Kaplakrika.

Kolbeinn, sem er tvítugur og hefur keppt fyrir UFA, hefur hlaupið allra karla hraðast hér á landi í 100, 200 og 400 m hlaupi utanhúss á þessu ári og er koma hans til FH mikill hvalreki fyrir félagið.

„Á þessum tímapunkti á ferlinum tel ég það vera mér fyrir bestu að skipta um félag," sagði Kolbeinn Höður í samtali við mbl.is í kvöld eftir að hann skrifaði undir samninginn við FH.

„Það er ekki um marga kosti að velja á Akureyri ef menn vilja breyta til og þar með ákvað ég að flytja suður. Þá stóð valið á milli FH og ÍR og FH varð fyrir valinu vegna þeirra góðu aðstöðu sem félagið býr yfir, nýtt innanhúss keppnishús og flott aðstaða utanhúss," sagði Kolbeinn Höður ennfremur. „Aðstaðan réðu mestu auk þess sem ég þekki marga í FH þess utan sem þjálfararnir eru góðir."

Kolbeinn Höður hefur átt góðu gengi að fagna á þessu ári. Hann segist stefna ótrauður áfram á framfarir og næst markmið er að öðlast keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Amsterdam í Hollandi á næsta sumri.

Nánar er rætt við Kolbein á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert