Fyrsta hluta Norðurlandamótsins í sundi fatlaðra er lokið í DBO sundhöllinni í Bergen í Noregi og eignuðust Íslendingar tvo Norðurlandameistara í morgun.
Það var reynsluboltinn Guðmundur Hákon Hermannsson sem fyrstur tók við gullverðlaunum í íslenska hópnum en hann náði fyrsta sæti í hópi eldri keppanda (senior) í 400 metra skriðsundi á tímanum 5:00,89 mínútum.
Í kjölfarið kom svo gull hjá Thelmu Björg Björnsdóttir (junior) í sömu grein á tímanum 6:10,06 mínútum. Norðmennirnir hafa sett mótið upp þannig að keppendur fá stig fyrir það hversu nálægt þeir eru heimsmeti í þeirra fötlunarflokki. Þeir sem skora svo flest stig pr. grein fara með sigur af hólmi í annars vegar ungmenna (junior) og hins vegar fullorðins (senior) flokki óháð fötlunarflokkum. S.s. allir keppa við alla.
Einnig hafa unnið til verðlauna þau Aníta Ósk Hrafnsdóttir (senior), brons fyrir 200 metra skriðsund og 100 metra flugsund. Róbert Ísak Jónsson (junior) fékk silfur í 200 metra skriðsundi, Sandra Sif Gunnarsdóttir (junior) fékk silfur í 100 metra flugsundi, og Már Gunnarsson (junior) fékk brons fyrir 400 metra skriðsund.