„Þetta hefur verið mjög gott ár fyrir íslenska sundheiminn. Við höfum unnið mjög vel fyrir þessu og eigum þetta skilið. Þessi árangur sem hefur náðst er mjög góður fyrir okkur öll í landsliðinu, ekki bara mig, Hrafnhildi og Eygló, því þetta sýnir að Íslendingar geta verið í fremstu röð í sundi. Það hefur vantað síðustu ár.“
Þetta sagði Anton Sveinn McKee, fremsti sundkarl þjóðarinnar síðustu ár, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í sjópottinum í Laugardalslaug á dögunum.
Eins og Anton bendir á hefur árið verið frábært hjá íslensku sundfólki. Árangur Eyglóar Óskar Gústafsdóttur og Hrafnhildar Lúthersdóttur hefur fengið verðskuldaða athygli og kannski skyggt svolítið á frábæra framgöngu Antons sem var frá keppni í marga mánuði í fyrra vegna meiðsla. Anton varð meðal annars í 13. sæti í 200 metra bringusundi á HM í 50 metra laug í Kazan í ágúst og setti tvö Íslandsmet á þessum stærsta vettvangi sundheimsins, ef Ólympíuleikarnir eru undanskildir.
„Það er hvetjandi fyrir okkur að sjá hvert annað standa sig svona vel, á svona háu stigi, og ég er mjög ánægður með það að við skulum hafa sýnt hvað í okkur býr. Við erum búin að vera saman í þessu mjög lengi og nú er mikil vinna að skila sér,“ sagði Anton.
Sjá viðtalið í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.