Hvar verður bardagi Gunnars sýndur?

Gunnar Nelson
Gunnar Nelson mbl.is/Ómar Óskarsson

Í dag mun Gunnar Nelson berjast í átjánda bardaga sínum í blönduðum bardagalistum (MMA) og sínum áttunda bardaga í UFC bardagasamtökunum. Andstæðingurinn er Rússinn Albert Tumenov, en hann er í 13. sæti styrkleikalista samtakanna í veltivigt.

Bardaginn fer fram í Rotterdam í Hollandi, en það er í fyrsta skiptið sem UFC heldur bardagakvöld í landinu. Um er að ræða talsvert betri staðsetningu fyrir almenna áhugamenn um MMA hér á Íslandi, en flest kvöldin fara fram í Bandaríkjunum eða öðrum löndum Norður- og Suður-Ameríku þannig að bardagarnir fara fram seint um nótt á íslenskum tíma. Í þetta skiptið hefjast aðalbardagarnir aftur á móti klukkan 18:00 á íslenskum tíma.

Pétur Marinó Jónsson, eigandi og ritstjóri vefmiðilsins MMA fréttir, segir þetta miklu þægilegra fyrir íslenska áhorfendur, sérstaklega þá sem eigi börn og þurfi því ekki að vaka langt frameftir. Segir hann að áhangendur Gunnars hafi hingað til reyndar ekki látið það stöðva sig þótt bardagarnir fari fram seint um nótt, en klárlega sé þessi tímasetning betri. Segir hann líklegt að bardagi Gunnars byrji milli hálf átta og átta um kvöldið.

Bardagakvöldið verður sýnt á Stöð 2 sport, en fjöldi öldurhúsa mun sýna bardagann. Meðal þeirra staða sem mbl.is hefur fengið staðfest að sýni frá kvöldinu eru:

  • Spot í Kópavogi
  • Ölver í Glæsibæ
  • Bjarni Fel sportbar í Austurstræti
  • Rauða ljónið á Eiðistorgi
  • Hendrix sportbar við Gullinbrú
  • Sportbarinn í Keiluhöllinni í Egilshöll
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert