Nýir eigendur hjá UFC

Salan á UFC var kláruð um helgina, en þá fór …
Salan á UFC var kláruð um helgina, en þá fór einnig fram stærsta bardagakvöld samtakanna hingað til. AFP

Stærstu eigendur bardagasamtakanna UFC hafa selt hlut sinn í félaginu fyrir 4 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 500 milljörðum. Það er umboðsstofan WME-IMG sem keypti hlutinn ásamt nokkrum fjárfestingasjóðum og fjárfestum. Meðal þeirra eru Michael S. Dell, forstjóri og stofnandi Dell-tölvufyrirtækisins.

Samkvæmt heimildum Fox Sports, sem er meðal helstu samstarfsaðila UFC og á sýningarrétt frá fjölda bardagakvölda, mun forstjóri félagsins og minnihlutaeigandi, Dana White, áfram stýra félaginu og daglegum rekstri.

Bardagamennirnir Brock Lesnar og Mark Hunt ásamt forstjóranum Dana White …
Bardagamennirnir Brock Lesnar og Mark Hunt ásamt forstjóranum Dana White (á milli þeirra). AFP

WME-IMG hefur um árabil verið samstarfsaðili UFC og lék stórt hlutverk í að Fox Sports keypti sýningarrétt að UFC árið 2011. Þá hefur fyrirtækið meðal annars séð um öll almannatengsl fyrir bardagakonuna Ronda Rousey utan hringsins.

Það eru bræðurnir Lorenzo og Frank Fertitta sem selja stærstan hluta bréfa sinna til WME-IMG, en þeir eru eigendur Zuffa LLC. Keyptu þeir félagið árið 2001 ásamt White fyrir tvær milljónir dala, eða um 250 milljónir króna. Síðan þá hafa samtökin orðið að alþjóðlegu fyrirbæri sem nýtur vinsælda um allan heim. Meðal annars er Íslendingurinn Gunnar Nelson á mála hjá samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert