Sundkappinn Michael Phelps lauk glæstum ólympíuferli sínum með því að vinna gullverðlaun í 4x100 metra fjórsundi með sveit Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt. Þar með hefur hann unnið til 23 ólympíugullverðlauna á ferlinum.
Þetta voru fimmtu gullverðlaun Phelps í Ríó. Einnig hlaut hann silfurverðlaun fyrir 100 metra flugsund.
Phelps var þriðji í röðinni til að synda fyrir sveit Bandaríkjamanna og náði forystunni. Nathan Adrian synti svo síðasta sprettinn fyrir sveitina og tryggði henni sigur á undan Bretum og Áströlum.
Bob Bowman, þjálfari bandaríska liðsins, hrósaði Phelps í hástert eftir sundið.
„Ég held að við eigum ekki eftir að sjá annan Michael, sagði hann.
What a career for @MichaelPhelps! 🇺🇸 pic.twitter.com/CRweCNWVET
— U.S. Olympic Team (@TeamUSA) August 14, 2016
Phelps, sem er sigursælasti íþróttamaðurinn í sögu Ólympíuleikanna, var að vonum ánægður eftir sundið. „Það voru mun meiri tilfinningar í spilinu en á leikunum árið 2012,“ sagði hinn 31 árs sundkappi. „Ég held að það sé gott mál. Að geta horft til baka á ferilinn og sagt að manni hafi tekist að ná þeim markmiðum sem maður vildi ná. Ég gæti ekki verið ánægðari með hvernig þetta endaði.“