Hefur sætt sig við að ferlinum sé lokið

Jón Benedikt Gíslason:
Jón Benedikt Gíslason: Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason.

Ferli Jóns Benedikts Gíslasonar, landsliðsmanns í íshokkíi, gæti verið lokið vegna bakmeiðsla. Jón gaf ekki kost á sér í landsliðið síðasta vor vegna meiðslanna og hefur ekkert leikið með Skautafélagi Akureyrar á þessu tímabili.

Jón tjáði Morgunblaðinu að í sumar hefði hann sjálfur reiknað með því að ferlinum væri lokið. „Ég var búinn að sætta mig við það. Ef ég get ekki æft eins og íshokkíleikmaður þá er ferillinn búinn,“ sagði Jón í gær. Hann segist eiga von á því að hafa spilað sinn síðasta landsleik fyrir Íslands hönd en útilokar ekki að eiga eftir að snúa aftur á ísinn í búningi SA. Jón segist vera að vinna í því að koma sér í leikform en fer sér hægt og er hóflega bjartsýnn.

„Löngunin er til staðar en maður þarf einnig að hugsa um heilsuna. Ég hef ekki áhuga á að ná bara einum leik og liggja eftir í ísnum eftir fyrstu tæklingu. Ég þori ekki að fara á ísinn nema vita að ég sé í þannig formi að ég geti varið mig. Ef maður getur það ekki er alveg eins gott að hætta,“ sagði Jón sem fékk heilahristing í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor og segir það hafa bætt gráu ofan á svart varðandi líkamlegt ásigkomulag sitt.

Nánar er rætt við Jón Benedikt í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert