Einar Ingi á fyrsta stórmótinu í kvöld

Einar Ingi Jónsson í jafnhendingu.
Einar Ingi Jónsson í jafnhendingu. Ljósmynd/LSÍ

Einar Ingi Jónsson úr Lyftingafélagi Reykjavíkur (LFR) keppir í kvöld klukkan 20 á EM unglinga í flokki 20 ára og yngri sem fram fer í Eilat í Ísrael. Einar er skráður með níunda besta árangurinn í flokknum en þetta er hans fyrsta stórmót í lyftingum.

Tveir Íslendingar keppa á mótinu en Freyja Mist Ólafsdóttir, einnig úr LFR, keppir á fimmtudagskvöldið í -75kg flokki 20 ára og yngri en hún er með skráðan sjötta besta árangurinn í þeim flokki.

Í gær vann Rebekka Tao Jacobsen frá Noregi silfur í jafnhendingu í -53kg flokki kvenna 20 ára og yngri þegar hún jafnhenti 94kg og voru það fyrstu verðlaun Norðmanna á stórmóti 20 ára og yngri í ólympískum lyftingum síðan 1979. Sá árangur dugði henni í 4. sæti í samanlögðum árangri á eftir rússneskri, hvít-rússneskri og úkraínskri stelpu en öll þessi lönd munu fara í bann árið 2017 frá keppni í ólympískum lyftingum vegna fjölda brota á lyfjalögum við endurprófanir á sýnum vegna Ólympíuleikanna 2008 og 2012.

Heimsmetahafinn og ólympíumeistarinn í +105kg flokki karla, Lasha Talakhadze frá Georgíu, er á meðal keppenda á mótinu í flokki 23 ára og yngri og keppir hann næsta laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert