Hafdís Sigurðardóttir, Íslandsmethafi í langstökki og margfaldur Íslandsmeistari, verður ekkert með á komandi keppnisári þar sem hún ber barn undir belti. Hafdís á von á sér í kringum mánaðamótin júní/júlí, á miðju keppnistímabili utanhúss, en stefnir hins vegar ótrauð á það að snúa aftur að ári og bæta við þá 40 Íslandsmeistaratitla sem hún hefur þegar unnið á ferlinum.
„Ég hef ekkert sagt skilið við íþróttina. Ég er bæði að þjálfa og hef reynt að æfa sjálf eins og ég get. Ég lá hins vegar alveg í sex, sjö vikur með mikla ógleði, en núna er ég öll orðin betri og ætla að reyna að komast af stað aftur og halda mér við,“ sagði Hafdís við Morgunblaðið þegar hún staðfesti gleðifréttirnar.
Hafdís var hársbreidd frá því að komast á Ólympíuleikana í Ríó í sumar. Íslandsmet hennar frá því í júlí, 6,62 metrar, var aðeins 8 sentimetrum frá lágmarkinu í langstökki. Hún segir að það hafi reynst erfitt að glíma við vonbrigðin, en allt horfi nú til betri vegar.
„Já, ég verð að segja að þetta tók mjög á mig andlega. Þetta var bara hálfgert áfall, enda hafði þetta verið stefnan í einhver ár og leit mjög vel út. En að missa af þessu svona naumlega er bara ömurlegt,“ sagði Hafdís, en planið var að huga að barneignum eftir Ólympíuleikana.
Lengra viðtal við Hafdísi er í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.