Marc Bartra leikmaður Borussia Dortmund gekkst undir vel heppnaða aðgerð á hendi en hann handarbrotnaði í sprengjuárásinni sem gerð var á liðsrútu Dortmund fyrir leikinn gegn Mónakó í Meistaradeildinni í gær.
Þýska blaði Bild segir að Bartra spili ekki meira með á þessu tímabili en faðir leikmannsins, Jose Bartra, segist hafa rætt við son sinn í gær sem reiknar með því að yfirgefa sjúkrahúsið eftir nokkra daga.
„Við ræddum við hann eftir aðgerðina og hann tjáði okkur að hann hefði það fínt,“ sagði Jose Bartra við spænska fjölmiðla.
Faðir leikmannsins segir að sonur sinn sé í sjokki eftir árásina.
„Það fyrsta sem hann heyrði var hávær sprenging. Hann fann síðan fyrir verk í höfðinu og varð fyrir meiðslum á hendinni en hann vissi ekki hvað hefði gerst,“ sagði Jose Bartra.
UEFA ákvað að aflýsa leiknum en hann verður spilaður í dag og hefst klukkan 16.45 að íslenskum tíma.
„Við munum að sjálfsögðu spila fyrir Marc Bartra sem vill sjá lið sitt vinna,“ segir Hans-Joachim Watzke framkvæmdastjóri Dortmund við Bild. „Við viljum líka sýna að hryðjuverk og hatur geta aldrei stöðvað okkur. Við munum ekki spila bara fyrir okkur í dag heldur fyrir alla,“ segir Watzke.