Þrátt fyrir að næsti andstæðingur Gunnars Nelson sé fyrir neðan hann á styrkleikalista UFC segir Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, að hann sé sterkur bardagamaður með flotta ferilskrá í blönduðum bardagaíþróttum, sé nú á góðri siglingu í UFC og sé bæði sterkur standandi og í gólfinu. Fyrr í dag var tilkynnt að Gunnar myndi mæta Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio þann 16. júlí í Glasgow í Skotlandi, en aðeins eru 8 vikur í bardagann.
„Við erum ofboðslega ánægðir með að vera komnir með bardaga,“ segir Haraldur og bætir við að Gunnar hafi verið búinn að segja að hann vildi ná þremur bardögum á árinu. Síðast barðist hann í mars og því var nauðsynlegt að ná bardaga í sumar til að geta haldið því plani. Haraldur segir Gunnar hafa verið búinn að lýsa því yfir að hann væri spenntur að berjast á bardagakvöldinu í Glasgow þó að UFC samtökin hafi horf til þess að hann kæmi til Bandaríkjanna.
„En svo var tíminn farinn að líða, bara átta vikur í kvöldið, en þetta gekk loksins upp,“ segir Haraldur. Hann segir viðræðurnar hafi fyrst farið á flug aðfaranótt miðvikudags og svo hafi þetta verið klárað í gær.
Ponzinibbio er í 13. sæti styrkleikalista UFC. Eftir sigur Gunnars á Alan Jouban í mars var horft til þess að Gunnar myndi fá bardaga við bardagamann fyrir ofan sig á styrkleikalistanum, en sjálfur er Gunnar í 9. sæti. Haraldur segir að Gunnar hafi óskað eftir slíkum bardaga, en enginn andstæðingur hafi verið eftir sem hafi verið ómeiddur eða laus.
Ponzinibbio er með 24 sigra og 3 töp í blönduðum bardagaíþróttum og hefur hann sigrað 13 bardaga með rothöggi og 6 með uppgjafartaki. Haraldur bendir á að hann sé með svart belti í brasilísku jiu-jitsu, en Gunnar heldur einnig á slíku belti. Ponzinibbio er þó upphaflega sparkboxari og segir Haraldur að hann sé bæði góður standandi og í gólfinu. „Hann er góður kostur og þetta verður skemmtilegur bardagi,“ segir Haraldur.
Einkenni Ponzinibbio eru að sögn Haralds að hann slær oft og skori þannig hátt hjá dómurum. Þá sé hann mjög hreyfanlegur, en byrji venjulega rólega í bardögum, en komi svo sterkari inn í annarri og þriðju lotu.
Nokkur umræða var á sínum tíma um hvort Gunnar fengi bardaga á móti Stephen „Wonderboy“ Thompson, sem er í fyrsta sæti styrkleikalistans á eftir Tyron Woodly sem er meistarinn. Haraldur segir að UFC hafi áhuga á þeirri keppni, en að Thompson hafi verið meiddur og því ekki tilbúinn til að keppa á ný fyrr en í september eða október. „Gunnar vill vissulega berjast við hann, en ekki bíða svo lengi ef annað er í boði.“ Þá hafði líka verið rætt um mögulegan bardaga við Neil Magny sem er í sjötta sæti styrkleikalistans, en Haraldur segir að það líti út fyrir að meiðsl sem hann var að glíma við séu langvinnari en búist var við. Það gæti því dregist fram á haustið að Magny mætti í hringinn.
En hvað tekur við hjá Gunnari ef bardaginn í júlí gengur að óskum? Haraldur segir að þá muni þeir gera kröfu um að næst fái Gunnar mótherja fyrir ofan sig, hvar sem hann verði. „Við munum bíða eftir slíkum bardaga.“ Segir hann að þótt að styrkleikalistinn segi ekki allt væri slíkt skref nauðsynlegt með hliðsjón af markmiði Gunnar sem setur stefnuna á titilinn í þyngdarflokknum.
Bardaginn í júlí verður aðalbardagi kvöldsins sem þýðir að hann er fimm lotur í stað þriggja venjulega. Slíkt kallar á að bardagamennirnir séu í enn betra formi en venjulega og geti haldið út fimm lotur ef bardaginn klárast ekki fyrr. Haraldur segir að Gunnar sé í toppformi í dag og hafi æft reglulega síðan í mars þegar síðasti bardagi var. Þá hafi Gunnar verið mjög vel undirbúinn og vel getað farið fimm lotur. Haraldur segist eiga von á því að hluti af æfingabúðum Gunnars verði hér á Íslandi og hluti þeirra á Írlandi.