Viðar Halldórsson, doktor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hefur ráðist í að rannska hvers vegna íslensk A-landslið í hópíþróttum hafa náð jafn langt á alþjóðlegum vettvangi og raun ber vitni, síðasta áratuginn eða svo.
Viðar sendir nú frá sér bókina: Sport in Iceland. How Small Nations Achieve International Success. Bókin er á ensku og gefin út af bresku bókaforlagi, Routledge Focus, sem er þekkt fyrir að gefa út rit fræðimanna.
Viðar tjáði Morgunblaðinu í gær að hann hefði víða leitað fanga vegna vinnunnar við bókina en þar að auki hefur hann verið viðloðandi íþróttastarf á Íslandi sem ráðgjafi um árabil. „Ég var með ágætan grunn og mér fannst þetta vera næsta skref. Þetta er svokölluð tilviksrannsókn sem er viðurkennd rannsóknaraðferð. Um fjörutíu formleg viðtöl voru tekin, til dæmis við þjálfara í öllum þessum íslensku landsliðum sem skráðu sig á spjöld sögunnar með því að komast í lokakeppnir eða vinna til verðlauna á síðustu árum.
Einnig við leikmenn úr öllum þessum liðum auk fræðimanna, íþróttafréttamanna, ráðherra og fleiri úr íslensku samfélagi. Ég heimsótti einnig erlend atvinnumannalið til þess að fá samanburð og þar ræddi ég við íþróttastjóra og þjálfara. Þá gat ég borið saman heim atvinnumanna og íþróttaheiminn á Íslandi. Bókin byggist einnig á alls kyns gögnum, bókum, heimildarmyndum, fyrirlestrum, tölfræðiupplýsingum og vettvangsathugunum. Sem fræðimaður þarf ég að nota tæki og tól félagsfræðinnar til að skilja og skýra frá.“
Spurður út í niðurstöðurnar segir Viðar ekki hægt að skýra árangur Íslendinga með einu tilteknu atriði en í stuttu máli er hann þeirrar skoðunar að árangurinn sé blanda af menningarlegum sérkennum annars vegar og aukinni fagmennsku í vinnubrögðum.
„Við Íslendingar byggjum á sterkum íþróttagrunni þar sem við nálgumst íþróttir sem leik og skemmtun. Þannig hafa leikmenn í landsliðunum almennt séð nálgast sína íþrótt. Ofan á það er komin aukin fagmennska á öllum sviðum íþrótta og aukin sérfræðiþekking sem bindur þetta saman og er frábær blanda. Fyrir vikið eigum við landslið sem byggja á rosalegri leikgleði, stemningu, og vinskap en einnig fagmennsku og aga.
Við fáum það besta úr báðum heimum, annars vegar heimi atvinnumanna og svo heimi áhugamanna. Fagmennskan hefur aukist en er þó ekki of mikil. Ef hún ræður algerlega ríkjum þá töpum við hjartanu og leikgleðinni. Það er menningarlegt fyrirbæri og hjálpar okkar landsliðum þótt það myndi ekki endilega virka fyrir landslið annars staðar í heiminum.“