Fyrri dagurinn af tveimur fór fram í 2. deild Evrópumóts landsliða í frjálsum íþróttum í dag í Tel Aviv í Ísrael.
Ísland er þar í erfiðri stöðu, er í ellefta sæti af tólf liðum með 101 stig þegar keppnin er hálfnuð og á harða baráttu fyrir hendi á morgun til að halda sér í deildinni. Næstu lið fyrir ofan Ísland eru Ísrael með 126, Kýpur með 124 og Austurríki með 121 stig en fyrir neðan er Moldóva með 88 stig.
Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir vann í 800 metra hlaupi kvenna og hljóp á 2:02,57 en hún átti besta tímann af þeim sem hlupu í dag. Í 2. sæti varð Bianka Keri frá Ungverjalandi á 2:03,22. Íslandsmet Anítu er 2:00,05 sem hún setti á dögunum.
Ásdís Hjálmsdóttir varð í 2. sæti í spjótkasti er hún kastaði spjótinu lengst 60,67 metra í dag í sínu 2. kasti. Sara Kolak frá Króatíu vann með kasti upp á 61,06 metra. Hún keppir í kúluvarpi á morgun.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir varð í 2. sæti í 400 metra hlaupi er hún hljóp á 57 sekúndum sléttum. Agata Zupin frá Slóveníu vann á 56,8.
Hlynur Andrésson varð í 8. sæti í 5000 metra hlaupi er hann hljóp á tímanum 14:47,27 mínútum. Amine Khadiri vann á tímanum 14:13,22.
Hulda Þorsteinsdóttir varð svo þriðja í stangarstökki en hún fór yfir 4,05 í dag.
Alls var keppt í 21 grein í dag og svipuð dagskrá er á morgun.