Guðmundur Helgi Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alþjóða blaksambandinu, situr í framkvæmdastjórn Evrópumóts karla í blaki sem hefst í Póllandi um næstu helgi. Hann verður jafnframt eftirlitsmaður á mótinu.
Mikil eftirvænting ríkir fyrir mótinu í Póllandi, en gríðarlegur áhugi er fyrir blaki í landinu. Ákveðið er að úrslitaleikur mótsins fari fram á knattspyrnuleikvangi í Kraká. Búist er við að 62 þúsund áhorfendur verði á úrslitaleiknum. Ríflega 50 þúsund áhorfendur sáu upphafsleik heimsmeistaramótsins í blaki karla sem fram fór í Póllandi fyrir fáeinum árum.
Guðmundur var framkvæmdastjóri tækni- og þróunarmála hjá FIVB (Alþjóða blaksambandinu) í Lausanne í Sviss frá 2003 til 2015. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur sinnt svo háttsettu launuðu starfi hjá alþjóðlegu íþróttasambandi. Síðustu tvö ár hefur Guðmundur Helgi setið í stjórn Blaksambands Evrópu.