„Þetta var bara þriðji dagurinn á skíðum hjá mér núna,“ sagði skíðakonan Helga María Vilhjálmsdóttir í samtali við Morgunblaðið í gær, en hún liggur nú á sjúkrahúsi í Bergen í Noregi eftir að hafa fótbrotnað á stórsvigsæfingu á jöklinum Folgefonna á vesturströnd landsins í fyrradag.
„Það var búið að vera heitt þennan dag, ég var búin að taka nokkrar frjálsar ferðir en þegar við ætluðum í braut var ein beygjan miklu mýkri en ég átti von á. Snjórinn studdi ekki við skíðin þannig að þau fóru í rauninni undan mér. Ég lenti á andlitinu og ég fann að það kom högg á fótinn. Ég fattaði strax að hann var brotinn og fann að hann var laus. Svo heyrði ég það líka,“ sagði Helga María, sem brást strax við:
„Það fyrsta sem ég gerði var að rífa mig úr skíðinu, því það datt ekki af mér, og finna svo með tungunni hvort allar tennurnar væru á réttum stað. Svo kallaði ég á næstu þjálfara að hringja á sjúkrabíl því ég væri brotin,“ sagði Helga.
Hún var flutt með sjúkrabíl niður af jöklinum og þaðan með þyrlu til Bergen, þar sem hún liggur nú á sjúkrahúsi. En þrátt fyrir svakalegt áfall náði hún einhvern veginn að halda ró sinni í brekkunni.
Sjá viðtal við Helgu Maríu í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.