Þúsundir flykkjast til Finnlands

Íslenskir leikmenn og stuðningsmenn.
Íslenskir leikmenn og stuðningsmenn. mbl.is/Golli

KSÍ gerir ráð fyrir að tæplega þrjú þúsund Íslendingar styðji íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gegn Finnlandi í undankeppni HM í Tampere á laugardag. Körfuknattleikslandslið karla leikur sama dag við Pólverja á EM í Helsinki. KKÍ gerir ráð fyrir að lágmarki 2.200 Íslendingum á þann leik.

Þetta kemur fram í svörum frá forsvarsmönnum íþróttasambandanna tveggja.

Óhætt er að segja að einn stærsti íþróttadagur ársins verði á laugardag þegar landsliðin tvö spila leiki sína. Nokkur fjöldi Íslendinga hyggst styðja liðin en samtals má gera ráð fyrir ríflega fimm þúsund íslenskum áhorfendum á leikina tvo á laugardag. Líklega fer drjúgur hluti þeirra á báða leikina á laugardag.

Ósóttir miðar verða seldir aftur

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir við mbl.is að sambandið hafi selt tæplega 3.000 miða á leikinn gegn Finnlandi á laugardag, en Íslendingar eru í öðru sæti riðils síns í undankeppni HM, með jafnmörg stig og Króatar. Liðið má því helst ekki misstíga sig. „Þetta er með því meira sem við höfum selt á leiki landsliðsins erlendis. Við erum að verða búin með okkar miða,“ segir Klara.

Hún segir hins vegar að nokkuð sé um að miðar, sem keyptir voru í gegnum KSÍ, hafi enn ekki verið sóttir. Hún segir að það styttist í að sambandið reyni að selja þá miða aftur. Þessir miðaeigendur geta í síðasta lagi sótt miðana sína í dag.

Íslenskir tónlistarmenn skemmta

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir í samtali við mbl.is að um 1.200 Íslendingar hafi keypt sér miða sem gildi á alla leiki Íslands. Þeim til viðbótar hafi um 700 manns keypt sér miða á hvorn leikjanna tveggja sem fram fer um helgina. Ísland leikur við Pólland á laugardag en Frakkland á sunnudag.

„Þetta er bara magnað,“ segir Hannes um stuðninginn. Markið hafi verið sett á um 1.600 áhorfendur að jafnaði og það markmið gæti náðst. Mikið hafi verið lagt í skipulagningu í tengslum við þátttöku Íslands. Þannig muni íslensku tónlistarmennirnir Sverrir Bergmann, Halldór Fjallabróðir og hljómsveitin Úlfur Úlfur halda uppi fjöri á sérstöku svæði fyrir áhorfendur (e. fanzone) fyrir leiki Íslands.

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, er kominn til Finnlands.
Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, er kominn til Finnlands. KristinnIngvarsson

Redda öllum sem vilja miða

Hann segir að stuðningurinn muni skipta íslenska liðið miklu máli. Ferðalagið hafi farið sérstaklega vel af stað þegar liðið flaug til Finnlands. Vel hafi verið tekið á móti landsliðsmönnunum í Leifsstöð og þeir sem þar komu að máli eigi hrós skilið. „Þetta gefur strákunum og öllum í kring um liðið auka kraft. Þetta verður mikil gleði.“

Hannes segir að sambandið eigi eftir einhverja miða á leiki helgarinnar en tekur fram að þeir muni redda öllum sem leita til þeirra. „Við getum enn þá fengið fleiri miða ef þörf krefur. Þessu verður reddað á íslenskan máta, eins og öllu öðru,“ segir hann glaður í bragði. Best er að senda fyrirspurn um miða á kki@kki.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert