Guðlaug Edda fékk brons á Norðurlandamótinu

Guðlaug Edda, lengst til hægri, á verðlaunapalli.
Guðlaug Edda, lengst til hægri, á verðlaunapalli. Ljósmynd/Þríþrautarsamband Íslands

Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautarkona úr Ægi, endaði fyrr í dag í þriðja sæti á Norðurlandameistaramótinu í þríþraut sem fram fór í Fredericia, Danmörku. Keppt var í sprettþraut sem samanstendur af 750 metra sundi, 20 km hjóli og loks 5 km hlaupi.

Guðlaug byrjaði af krafti og kom fyrst upp úr sundinu sem skilaði henni í lítinn en sterkan fjögurra kvenna hjólahóp. Í hópnum mátti sjá þversnið af bestu þríþrautarkonum á Norðurlöndunm en í hópnum voru tveir Danir og Svíi, ásamt Guðlaugu. Hópurinn vann vel saman og þegar kom að hlaupinu var þessi hópur kominn með meira en mínútu í forystu á næstu konur.

Guðlaug fór vel af stað í hlaupinu og var önnur lengst af í harðri keppni og náði hún að tryggja sér bronsverðlaun og verða þar með fyrst Íslendinga til að ná í medalíu í meistaraflokki hjá ETU (European Triathlon Union). Frábær árangur hjá þessari ungu og efnilegu þríþrautarkonu. Sigurður Örn Ragnarsson, þríþrautarmaður úr Breiðablik, keppti einni í dag í sömu keppni og varð í 19. sæti í meistaraflokki karla.

Guðlaug var hæst ánægð með þessi úrslit en hún er búin að glíma við veikindi síðustu tvær vikur. Það er búið að vera mikið að gera hjá henni sumar en fyrir tveim vikum setti hún brautarmet í 10 kílómetra hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu, og náði að auki þriðja besta hlaupatíma íslenskra kvenna frá upphafi í götuhlaupi. Þrátt fyrir keppnir síðustu vikna er lítill tími fyrir hvíld en hún heldur af stað á mánudaginn í æfingarbúðir í Portúgal sem er þáttur í undirbúning fyrir Heimsmeistaramót U23 sem fer fram í Rotterdam, Hollandi eftir tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert