Þjálfarinn var ógeðslegur

Hólmfríður Magnúsdóttir á landsliðsæfingu.
Hólmfríður Magnúsdóttir á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vil ekki halda of lengi utan um þig, þá verð ég graður,“ sagði þjálfari Hólmfríðar Magnúsdóttir sem þjálfaði hana í Noregi sumarið 2015. Hólmfríður er ein 62 íþróttakvenna sem birta frásagnir af kyn­bund­inni mis­mun­un, kyn­ferðis­legri áreitni og kyn­ferðis­legu of­beldi.

Hólmfríður gaf leyfi fyrir því að nafn hennar fylgdi frásögninni.

Hún segir að þjálfarinn hafi þjálfað mörg lið og hafi verið þekktur. Hann byrjaði snemma að taka Hólmfríði fyrir og bannaði henni að fara heim í landsliðsverkefni að vori, því hún gæti verið meira úti og hitt hann. Þá endaði hann á því að faðma hana en sagðist ekki geta það of lengi, þá yrði hann of graður.

Þjálfarinn lagði hana í einelti og öskraði á hana

Í framhaldi af þessu hringdi þjálfarinn mikið í Hólmfríði og sendi henni skilaboð á hverjum einasta degi. „Tímabilið leið og hann lagði mig í einelti á æfingum, hótaði að reka mig heim af æfingu og naut þess að öskra á mig á hverri æfingu og inni í klefa fyrir framan allt liðið. Svo á milli æfinga var hann hringjandi og sendandi skilaboð sem endaði með því að ég svaraði oft og eiginlega alltaf rétt fyrir æfingu svo hann myndi ekki ganga á mig,“ skrifar Hólmfríður.

Hólmfríður í baráttu um boltann í leik gegn Austurríki á …
Hólmfríður í baráttu um boltann í leik gegn Austurríki á EM í sumar. AFP

Eftir útileik sendir þjálfarinn henni skilaboð og biður hana að kaupa handa sér babyolíu. Þegar Hólmfríður kemur heim þá æðir hann inn til hennar. „Spyr hvort ég sé með olíuna og hvort ég vilji koma aðeins inn í herbergi. Ég fór gjörsamlega í panikk, fékk sting í hjartað og sagði að ég hefði ekki keypt neina olíu, ég sagði að ég væri að fara yfir til stelpnanna í liðinu sem áttu heima í næsta húsi við mig um leið og ég væri búin að borða,“ skrifar Hólmfríður.

Segist vera með hann beinstífan í sófanum

Hann hélt áfram að ryðjast inn til hennar og fór að senda henni mjög óviðeigandi myndir og myndbönd af sjálfum sér. Eitt skiptið hringir hann í hana á föstudegi og spyr hvað hún sé að gera. 

„Eftir símtalið byrjar hann að senda hvort ég vilji hann og hann sé með hann beinstífan í sófanum, bara hvort ég gæti kíkt aðeins áður en ég fer. Ég svaraði ekki og hann hélt áfram að senda alla helgina en ég svaraði engu fyrr en á þriðjudagsmorgni rétt fyrir æfingu, og mætti svo með mikinn kvíða á æfingu. Ég þorði ekki að tjá mig við neinn í liðinu eða kringum liðið, hann hafði einhvern veginn stjórn á mér allan sólarhringinn og var ógeðslegur við mig á æfingum.“

Hólmfríður segist vera mjög reyndur leikmaður en það kom fyrir að hún grét á æfingum, í hálfleik og eftir leiki.

Hólmfríður var valin besti sóknarmaður norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu tímabilið …
Hólmfríður var valin besti sóknarmaður norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu tímabilið sem þjálfarinn ofsótti hana. Ljósmynd/Avaldsnes.no

Hólmfríður fór að taka upp öll símtöl frá honum og sendi stjórn félagsins allar upptökur, sms og allt. Hún fór upp í sumarhús og var þar yfir helgi. Þjálfarinn hringdi margoft og lofaði öllu fögru en var rekinn þriðjudaginn eftir það. Umræddur þjálfari hafði áður þjálfað 17 lið og aldrei enst lengur hjá hverju liði en í eitt og hálft ár.

Óttaðist að sjá hann

Hólmfríður reyndi að rifta samningi sínum við liðið því hún gat ekki hugsað sér að búa lengur í Noregi. „Því ég myndi ekki geta mætt honum og vildi aldrei í lífinu sjá þennan mann aftur. Tímabilið mitt 2016 var skrítið því alltaf þegar ég var á flugvellinum í Osló eða að keppa var ég alltaf hrædd og fór í panikk.“

Þjálfarinn lýsti síðan fyrsta leik Íslands á Evrópumótinu í Hollandi í sumar. Hólmfríður náði ekki að leiða þetta hjá sér og leitaði að honum uppi í stúku fyrir annan leikinn. „Við vorum að fara yfir klippur af andstæðingi okkar, hann var lýsa á einni klippunni og röddin hans var nóg til þess að ég missti einbeitninguna og fór að hugsa alveg til baka til 2015. Þá fattaði ég sjálf hvað þetta sat og situr enn djúpt inni í mér.“

Gekk á vegg eftir að þjálfarinn var rekinn

Hólmfríður fékk mikið spennufall eftir að þjálfarinn var rekinn og gekk á vegg. „Ég náði ekki að hugsa nógu vel um mig með mataræði og hætti nánast að borða. Viku eftir að hann var rekinn meiddist ég og var frá í sex vikur. Ég veit að þau meiðsli komu út af andlegu álagi og streitu. Eitt sem ég get sagt er að maður á að segja strax frá þegar hlutirnir eru ekki í lagi og standa með sjálfum sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert