Sir Mo Farah ósáttur við meðferð í München

Sir Mo Farah.
Sir Mo Farah. AFP

Sir Mo Farah, margfaldur ólympíu- og heimsmeistari, segir farir sínar ekki sléttar eftir að hafa ferðast í gegnum flugvöllinn í München. Þar segist hann hafa mætt kynþáttafordómum af hálfu starfsmanna.

Farah er breskur ríkisborgari en var á leið til Eþíópíu í æfingabúðir fyrir Lúndúnarmaraþonið. Sjálfur er Farah af afrísku bergi brotinn en hann fæddist í Sómalíu og er dökkur á hörund.

Póstaði hann myndskeiði á samfélagsmiðlum frá flugvellinum þar sem hann sagði starfsmann í öryggisgæslunni hafa áreitt sig þegar leitað var á honum. Upplifði Farah atvikið með þeim hætti að hörundslitur hans hafi þar spilað inn í hegðun starfsmannsins.

Var það síðar staðfest af talsmanni Sir Mo Farah þar sem stóð einnig að framkoman í garð Farah hafi verið ósanngjörn.

Fréttastofa BBC hefur reynt að fá viðbrögð frá forsvarsmönnum flugvallarins í München en það hefur ekki borið árangur svo vitað sé.

Farah er margfaldur heims- og ólympíumeistari bæði í 5.000 og 10.000 metra hlaupum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert