Valgarð Reinhardsson og Margrét Lea Kristinsdóttir voru sigurvegarar dagsins í Laugardalshöll þar sem barist var um Íslandsmeistaratitla á einstökum áhöldum í áhaldafimleikum.
Valgarð keppti til úrslita á 5 áhöldum af 6 og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á fjórum þeirra, svifrá, tvíslá, gólfi og hringjum og hafnaði í 2. sæti á bogahesti á eftir Arnþóri Jónassyni. Íslandsmeistari á stökki var Guðjón Bjarki Hildarson. Allir koma þeir frá Gerplu.
Í kvennaflokki varð Margrét Lea úr Björk hlutskörpust en hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á slá og gólfi, báðum áhöldunum sem hún keppti á í úrslitum. Glæsilegur árangur hjá Margréti sem er á sínu fyrsta ári í fullorðinsflokki, aðeins 15 ára.
Íslandsmeistari á tvíslá varð Irina Sazonaova úr Ármanni og á stökki varð það Agnes Suto-Tuuha úr Gerplu sem tók titilinn.
Í drengjaflokki var Martin Bjarni Guðmundsson úr Gerplu hlutskarpastur en hann varð Íslandsmeistari á tvíslá, svifrá og gólfi. Á hringjum varð það Ágúst Ingi Davíðsson, sem tryggði sér titilinn og á bogahesti var það Dagur Kári Ólafsson. Eini Íslandsmeistaratitillinn sem ekki fór til Gerplu úr karlakeppninni var Íslandsmeistaratitill Jónasar Þórissonar, úr Ármanni.
Í stúlknaflokki voru það æfingafélagar Margrétar Leu úr Björk sem hrifsuðu til sín alla titlana. Íslandsmeistarinn frá því í gær, Vigdís Pálmadóttir, vann stökk, tvíslá og gólf en Guðrún Edda Min Harðardóttir vann jafnvægisslá.
Umgjörðin mótsins í Laugardalshöll var glæsileg og á pari við það sem sést á heimsbikarmótum víða um heim og var frammistaða íslensku keppendanna eftir því. Á mótinu sáust tilþrif sem myndu sóma sér vel á erlendum vettvangi og það verður spennandi að sjá hverju þetta skilar landsliðinum í sumar en fimleikalandsliðin okkar eru að fara inn í gríðarlega langt og mikið landsliðatímabil.