Alexander Arnar Þórisson er merkilegur fýr. Hann hafði stundað ýmsar íþróttir fram undir tvítugt en hvergi náð að blómstra. Hann fór að æfa blak fyrir tveimur og hálfu ári og þá með meistaraflokki KA. Hann fór að spila með liðinu nánast frá fyrstu æfingu og smám saman hefur piltur verið að bæta sig. Hann átti sannkallaðan stjörnuleik í kvöld þegar KA lagði HK í fyrsta leik úrslitakeppninnar í blaki. Eins og ávallt þá var viðureign liðanna mjög jöfn en KA vann 3:1 eftir að Alexander hafði, nánast upp á sitt einsdæmi, snúið fjórðu hrinunni KA í vil.
Blaðamaður leitaði logandi ljósi að Alexander eftir leik og fann hann loks úti í góða veðrinu þar sem hann hvíldi lúin bein og kældi sig niður.
Sæll Alexander. Ætlar þú að verða eins og Tryggvi Snær Hlinason?
„Ég ætla að vera hann í blakinu“ sagði Alexander léttur.
Þetta er þriðja árið þitt í blakinu. Er þetta fyrsta úrslitakeppnin þín?
„Nei ég spilaði fyrsta árið mitt. Þá var ég nánast bara byrjandi og það er svakalega mikill munur á mér síðan þá.“
Þú varst að spila á kantinum í fyrra. Nú virðist þú vera búinn að hirða aðra miðjusmassarastöðuna í liðinu.
„Ég æfi ekki miðjustöðuna. Ég vil helst vera á kantinum eða í díóstöðunni. Díóstaðan er upptekin eins og er. Ég er bara notaður þar sem þjálfarinn getur notað mig og ég sætti mig við það. Ég er búinn að vera mest á miðjunni frá áramótum og það hefur gengið mjög vel.“
Leikurinn í kvöld var mjög góður hjá þér og það má segja að uppgjafirnar þínar í fjórðu hrinunni hafi höggvið á ákveðinn hnút og gefið liðinu þínu neistann sem þurfti til að komast aftur í gang.
„Ég var að prófa nýjar uppgjafir í kvöld og þær heppnuðust vel. Þetta krefst nákvæmni og er allt útreiknað með hjálp frá Níelsi Karlssyni. Það er gaman að finna það núna að það sem maður gerir í leikjunum er virkilega að skipta máli. Lengi vel var maður bara með og framlagið ekki mikið. Nú er bara næsta markmið að komast í landsliðið.“
Þetta var fyrsti leikur í einvíginu og hann var mjög jafn. Þetta eru mjög jöfn lið en þið virðist hafa eitthvað tak á HK í vetur.
„Þetta eru alltaf hörkuleikir og það er gaman að spila við HK. Þeir eru með hörkulið og ég á ekki von á öðru en að þetta varði jafnt. Það verður erfitt að sækja þá heim í næsta leik en við vonum það besta. Við vorum ekki allir upp á tíu í kvöld og vonandi eigum við eitthvað inni fyrir næsta leik“ sagði Alexander Arnar að lokum í sínu fyrsta blaðaviðtali.