Hvað gerðu Íslendingarnir í dag?

Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður ársins 2017 hjá Morgunblaðinu, skoraði þrennu …
Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður ársins 2017 hjá Morgunblaðinu, skoraði þrennu í Svíþjóð í dag. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Fjöl­marg­ir Íslend­ing­ar léku í dag með liðum sín­um er­lend­is í fót­bolta, körfu­bolta og hand­bolta og mbl.is fylgdist með gengi þeirra í þess­ari frétt sem var upp­færð jafnt og þétt í all­an dag og kvöld.

FÓTBOLTINN

Tyrkland

10.30 Kasimpasa - Karabükspor 2:0
Ólafur Ingi Skúlason leikur með Karabükspor sem situr á botni tyrknesku úrvalsdeildarinnar. Hann lék allan leikinn í 2:0 tapi gegn Kasimpasa í dag en þetta var níunda tap liðsins í röð.

Þýskaland

11.00 Duisburg - Sandhausen 0:2
Rúrik Gíslason spilaði fyrstu 82 mínúturnar í 2:0 sigri Sandhausen gegn Duisburg í þýsku B-deildinni. Sandhausen situr í 8. sæti deildarinnar með 41 stig.

Skotland

11.15 Motherwell - Aberdeen 3:0
Kári Árnason lék allan leikinn með skoska úrvalsdeildarliðinu Aberdeen í dag í undanúrslitum bikarkeppninnar en liðið tapaði 3:0 gegn Motherwell og er því úr leik. 

Rakel Hönnudóttir skoraði í fyrsta deildaleik sínum sem atvinnumaður með …
Rakel Hönnudóttir skoraði í fyrsta deildaleik sínum sem atvinnumaður með Limhamn Bunkeflo. AFP

Svíþjóð

12.00 Hammarby - Limhamn Bunkeflo 4:2
Anna  Björk Kristjánsdóttir og Rakel Hönnudóttir leika með Limhamn Bunkeflo í sænsku úrvalsdeildinni en keppni í henni hefst í dag. Þær léku báðar allan leikinn í svekkjandi tapi. Hammarby komst í 2:0 áður en Rakel og Amanda Kander skoruðu til að jafna metin um miðjan síðari hálfleikinn. Heimamenn áttu þó síðasta orðið og skoruðu í tvígang undir lok leiks.

12.00 Frej - Helsingborg 1:5
Andri Rúnar Bjarnason skoraði þrennu í 5:1-stórsigri Helsingborg á Frej í sænsku B-deildinni í dag. Fyrstu mörk hans sem atvinnumaður og Helsingborg er með 6 stig eftir tvo leiki.

13.00 Djurgården - Eskilstuna 2:1
Guðbjörg Gunnarsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir leika með Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni. Þær spiluðu báðar allan leikinn með liðinu í fyrstu umferð deildarinnar.

Tékkland

12.00 Slavia Prag - Viktoria Plzen 8:1
Sandra María Jessen leikur með meistaraliðinu Slavia Prag í tékknesku 1. deildinni. Hún var í byrjunarliðinu í dag í leik þar sem yfirburðir Slavia voru gríðarlegir. Slavia er með fimm stiga forystu í deildinni þegar sex umferðir eru eftir.

Ítalía

13.00 Cagliari - Udinese 2:1
Emil Hallfreðsson leikur með Udinese í ítölsku A-deildinni. Hann kom af bekknum á 75. mínútu og lék síðasta stundarfjórðunginn með Udinese sem er í 13. sæti af 20 liðum, sex stigum fyrir ofan fallsæti.

Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði fyrstu mörk sín í Noregi í …
Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði fyrstu mörk sín í Noregi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Noregur

13.00 Röa - Lilleström 2:5
Svava Rós Guðmundsdóttir leikur með Röa í norsku úrvalsdeildinni. Hún skoraði bæði mörk Röa í leiknum gegn meisturum Lilleström og eru þetta fyrstu mörk hennar fyrir liðið síðan hún gekk í raðir þess frá Breiðabliki í vetur. Röa hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.

16.00 Start - Vålerenga 1:6
Kristján Flóki Finnbogason, Aron Sigurðarson og Guðmundur Andri Tryggvason leika með Start og Samúel Aron Friðjónsson með Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni. Samúel lék fyrstu 70 mínúturnar hjá Vålerenga, skoraði eitt mark og lagði upp annað. Kristján Flóki spilaði allan leikinn fyrir Start en Aron sat á bekknum. Vålerenga er með 9 stig í 2. sæti en Start er næstneðst með 3 stig.

England

14.00 Burnley - Leicester 2:1
Jóhann Berg Guðmundsson leikur með Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Hann lagði upp eitt mark og spilaði allan leikinn með liðinu sem er í harðri baráttu um Evrópusæti og í sjöunda sætinu.

14.00 Swansea - Everton 1:1
Gylfi Þór Sigurðsson leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni. Hann er frá vegna meiðsla. Everton er í 9. sæti deildarinnar.

14.00 Middlesbrough -  Bristol City 2:1
Hörður Björgvin Magnússon leikur með Bristol City í ensku B-deildinni. Hann sat allan tímann á bekknum í dag eftir að hafa verið að glíma við meiðsli. Bristol City er í 11. sæti, fjórum stigum frá umspilssæti.

14.00 Norwich - Cardiff 0:2
Aron Einar Gunnarsson leikur með Cardiff í ensku B-deildinni. Hann spilaði allan leikinn með liðinu í dag og er Cardiff nú komið upp í annað sæti deildarinnar, í það minnsta um tíma.

14.00 Reading - Sunderland 2:2
Jón Daði Böðvarsson og Axel Andrésson leika með Reading í ensku B-deildinni. Jón Daði spilaði allan leikinn í fremstu víglínu og fiskaði vítið sem leiddi til fyrra marksins. Axel var ekki í liði Reading í dag vegna meiðsla. Reading er í 19. sæti, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

Danmörk

14.00 SönderjyskE - Lyngby 1:0
Eggert Gunnþór Jónsson leikur með SönderjyskE sem er í umspilsriðli um Evrópusæti og áframhaldandi sæti í dönsku úrvalsdeildinni. Hann spilaði allan leikinn í dag og lagði upp sigurmark liðsins sem er komið úr fallhættu og í baráttu um Evrópusæti.

Pólland

16.00 Jagiellonia - Gornik Zabrze 1:2
Böðvar Böðvarsson leikur með Jagiellonia í úrslitakeppninni um pólska meistaratitilinn. Hann spilaði allan leikinn með liðinu í dag og fékk þar með sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliðinu. Jagiellonia er í þriðja sæti, stigi á eftir toppliði Lech Poznan.

Búlgaría

17.00 Levski Sofia - Ludogorets Razgrad 0:1
Hólmar Örn Eyjólfsson leikur með Levski í úrslitakeppninni um búlgarska meistaratitilinn. Hann lék allan leikinn með liðinu í dag en Levski er í fjórða sæti, 25 stigum á eftir meisturum Ludogorets.

Sviss

17.00 Grasshoppers - St. Gallen 1:2
Rúnar Már Sigurjónsson leikur með St. Gallen í svissnesku úrvalsdeildinni en er í láni þar frá Grasshoppers. Hann spilaði allan leikinn í sigri St. Gallen í dag en liðið er nú fimm stigum fyrir ofan Grasshoppers í 5. sætinu.

Belgía

18.00 Lokeren - Eupen 3:0
Ari Freyr Skúlason leikur með Lokeren sem er í umspilsriðli í Belgíu um sæti í Evrópukeppni. Arnar Þór Viðarsson er aðstoðarþjálfari liðsins. Ari lék allan leikinn í sigri liðsins í dag. Lokeren er efst í sínum umspilsriðli með 7 stig eftir þrjá leiki.

Frakkland

18.00 Nantes - Dijon 1:1
Kolbeinn Sigþórsson leikur með Nantes í frönsku 1. deildinni. Hann var ekki með liðinu í dag vegna meiðsla.

Holland

18.45 Zwolle - Excelsior 1:1
Ögmundur Kristinsson leikur með Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni. Hann varði mark liðsins í jafnteflisleiknum í dag og fékk þar sitt fyrsta tækifæri í síðustu sextán leikjum liðsins í deildinni.

Bandaríkin

19.30 Utah Royals - Chicago Red Stars 0:1
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur með Utah Royals í bandarísku A-deildinni sem lék í kvöld fyrsta heimaleik sinn í sögunni frammi fyrir 19 þúsund áhorfendum. Gunnhildur lék allan leikinn með Utah sem er með 2 stig eftir 3 leiki og hún hefur gert eina mark liðsins í deildinni til þessa.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði 9 mörk fyrir Pick Szeged í …
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði 9 mörk fyrir Pick Szeged í undanúrslitum ungversku bikarkeppninnar og leikur til úrslita gegn Veszprém á morgun. Eva Björk Ægisdóttir

HANDBOLTINN

Ungverjaland

11.00 Pick Szeged - Csurgoi 37:17
Stefán Rafn Sigurmannsson leikur með Pick Szeged í undanúrslitunum (Final Four) í ungversku bikarkeppninni. Hann skoraði 9 mörk í öruggum 37:17 sigri á Csurgoi og Szeged mætir Veszprém í úrslitaleik keppninnar á morgun.

Danmörk

14.10 Skjern - Tvis Holstebro 35:30
Tandri Már Konráðsson leikur með Skjern og Vignir Svavarsson með Tvis Holstebro í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn. Tandri skoraði ekki fyrir Skjern, en hann leikur fyrst og fremst sem varnarmaður. Vignir skoraði 3 mörk fyrir Holstebro.

16.15 Aalborg - Århus 28:27
Janus Daði Smárason, Arnór Atlason og Darri Aronsson leika með Aalborg og Aron Kristjánsson þjálfar liðið en Ómar Ingi Magnússon, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson leika með Århus í úrslitakeppninn um danska meistaratitilinn. Janus skoraði eitt mark fyrir Aalborg en lagði upp sigurmarkið í miklum spennuleik. Hjá Århus litu níu íslensk mörk dagsins ljós; 5 frá Róberti auk þess sem Ómar og Sigvaldi skoruðu 2 mörk hvor.

Svíþjóð

16.30 Guif - Kristianstad 23:26
Ólafur Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson og Gunnar Steinn Jónsson leika með Kristianstad í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitunum um sænska meistaratitilinn. Kristianstad er nú komið í undanúrslit, en Ólafur skoraði 4 mörk fyrir liðið á meðan hinir komust ekki á blað.

Þýskaland

18.00 Konstanz - Balingen 27:31
Oddur Gretarsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson leika með Balingen í þýsku B-deildinni. Oddur var næstmarkahæstur hjá Balingen í leiknum með 7 mörk og Sigtryggur skoraði eitt. Balingen er í 6. sæti.

18.30 RN Löwen - Wetzlar 34:25
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson leika með RN Löwen í þýsku 1. deildinni. Guðjón Valur skoraði 5 mörk í leiknum og Alexander skoraði 4. Löwen er með tveggja stiga forystu í deildinni og á leik til góða á Flensburg sem er í öðru sæti.

18.30 Erlangen - Hannover-Burgdorf 34:28
Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar Erlangen og Rúnar Kárason leikur með Burgdorf í þýsku 1. deildinni. Rúnar var ekki með í dag vegna meiðsla. Erlangen er í 13. sæti og komið í örugga fjarlægð frá botnbaráttunni. Burgdorf hefur sigið niður í 5. sæti eftir að hafa verið við toppinn í vetur.

KÖRFUBOLTINN

Grikkland

13.30 Kymis - Rethymno 82:76
Hörður Axel Vilhjálmsson leikur með Kymis í grísku A-deildinni. Hann lék í rúmar 16 mínútur í dag og skoraði 3 stig og tók 2 fráköst. Þetta var lykilleikur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og Kymis stendur nú vel að vígi í 7. sæti.

Danmörk

14.00 Hörsholm - Stevnsgade 60:58
Sandra Lind Þrastardóttir leikur með Hörsholm í fyrsta leiknum í úrslitaeinvíginu um danska meistaratitilinn. Hún skoraði tvö stig og tók eitt frákast í leiknum í dag.

Spánn

17.00 Zaragoza - Valencia 74:97
Tryggvi Snær Hlinason leikur með Valencia í spænsku A-deildinni. Hann skoraði fjögur stig á þeirri tæpu mínútu sem hann spilaði í dag. Valencia er í 4. sæti deildarinnar.

Hildur Björg Kjartansdóttir lét mikið að sér kveða með Leganés …
Hildur Björg Kjartansdóttir lét mikið að sér kveða með Leganés í kvöld. mbl.is/Hari

17.00 Leganés - Corral y Vargas 64:53
Hildur Björg Kjartansdóttir leikur með Leganés í spænsku B-deildinni. Hún átti stórleik í dag, var stigahæst í liði sínu með 13 stig, tók 7 fráköst og gaf að auki 4 stoðsendingar. Lið hennar er í 5. sæti deildarinnar.

Frakkland

18.00 Cholet - Mónakó 72:89
Haukur Helgi Pálsson leikur með Cholet í frönsku A-deildinni. Hann skoraði 10 stig og tók 2 fráköst fyrir lið sitt í tapinu í dag gegn efsta liði deildarinnar. Cholet er í 16. sæti af 18 liðum en þó þremur sigurleikjum frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert