Breiðablik tók tvöfaldan sigur á Íslandsmótinu í tímaþraut sem haldið var við Kleifarvatn í dag, en það voru þau Rúnar Örn Ágústsson og Rannveig Anna Guicharnaud sem lönduðu sigri.
Veðrið lék við keppendur á þessum besta sumardegi ársins sunnan heiða og nutu þeir þess að veginum var lokað í stutta stund meðan á keppni stóð og var öryggi því í fyrirrúmi. Keppt var bæði í Íslandsmóti og í almenningsmóti á götuhjólum.
Í karlaflokki sigraði sem fyrr segir Rúnar Örn á tímanum 25:28, en í öðru sæti var Ingvar Ómarsson, einnig úr Breiðabliki, á tímanum 25:43. Hafsteinn Ægir Geirsson úr HFR var í þriðja sæti á 26:19 og Hákon Hrafn Sigurðsson úr Breiðabliki, sem var Íslandsmeistari árið áður, endaði í fjórða sæti á 26:49.
Rannveig kom fyrst í mark í kvennaflokki á tímanum 30:54. Önnur var Ágústa Edda Björnsdóttir úr Tindi á 31:00. Hún hafði unnið fyrstu tvö bikarmót ársins, en Rannveig náði að skjótast sex sekúndum fram úr henni í dag. Margrét Pálsdóttir úr Breiðabliki var í þriðja sæti á 33:00.
Í tímaþraut er hver keppandi ræstur með 30 sekúndna millibili og getur hann ekki nýtt kjölsog annarra keppenda eins og í hefðbundnum götuhjólakeppnum. Því er um að ræða hreina aflkeppni, en í keppninni í kvöld var reyndar meira um brekkur en alla jafna í svona keppnum sem kom með nýja vídd í keppnina í formi þess að afl á hvert kíló fer líka að skipta máli. Lesa má nánar um tímatöku og helstu atriði hennar hér.
Keppendur í tímaþraut mega þar að auki vera búnir svokölluðum „aero-hjálmi“ en hann minnkar loftmótstöðu nokkuð. Þá eru hjólin öll hönnuð með minni loftmótstöðu í huga en almenn götuhjól. T.d. er leyfilegt að vera með plötugjarðir sem eru óheimilar í götuhjólakeppnum og stýri þar sem hægt er að leggjast á fram á hjólið til að draga enn úr loftmótstöðu. Sjá má dæmi um slíkt hjól og hjálm á myndinni hér að neðan.
Lesa má nánar um mótið og sigurvegara í öðrum flokkum á vef Hjólafrétta.