Serbneski framherjinn Vladimir Tufegdzic hefur samið við knattspyrnudeild KA og leikur með Akureyrarliðinu út keppnistímabilið. Þetta kemur fram á heimasíðu KA í morgun.
Tufegdzic hefur verið í herbúðum Víkings í Reykjavík síðan 2015, tekið þátt í 60 leikjum og gert 18 mörk. Þar af eru 53 leikir og 12 mörk í efstu deild.
„Þessi 27 ára gamli Serbi mun gefa sóknarlínu KA meiri breidd og er mikil ánægja með komu hans hingað norður,“ segir á heimasíðu KA.
Tufegdzic hefur verið með í sjö leikjum Víkings í Pepsi-deildinni í sumar en ekki skorað. Þá lék hann tvo bikarleiki og gerði eitt mark.