Bryndís Lára að láni til ÍBV

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir í leik með ÍBV fyrir nokkrum árum.
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir í leik með ÍBV fyrir nokkrum árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Knattspyrnumarkvörðurinn Bryn­dís Lára Hrafn­kels­dótt­ir hefur gengið til liðs við ÍBV en hún kemur að láni frá Íslandsmeisturum Þórs/KA.

Bryn­dís gaf það út síðastliðið haust að hún myndi taka sér pásu frá fót­bolta um óákveðinn tíma og sagðist ætla að reyna fyr­ir sér í frjáls­um íþrótt­um. Þegar arftaki hennar í marki Þórs/KA, Helena Jóns­dótt­ir, meiddist alvarlega rétt fyrir mót sneri Bryndís hins vegar aftur í mark liðsins og spilaði fyrstu fjóra leiki sumarsins.

Nú er hún komin aftur í lið ÍBV þar sem hún lék á árunum 2012 til 2016 við góðan orðstír en hún segist vera byrjuð að einbeita sér aftur að fótboltanum á fullu.

„Ég sagði í fyrra að ég ætlaði að taka mér smá pásu frá boltanum, sem ég gerði. Núna er ég tilbúin að fara aftur af stað á fullu,“ sagði Bryndís í samtali við mbl.is rétt í þessu.

„Þetta er svolítið bara minn klúbbur einhvern veginn. Ian Jeffs heyrði í mér í síðustu viku og ég þurfti ekkert að hugsa mig um.

Emily Joan Armstrong hefur staðið á milli stanganna hjá ÍBV í sumar en Bryndís segist ekki vita hvort hún fari beint í mark liðsins eða hvort hún þurfi að vinna sér það inn. Hún er tilbúinn í slaginn hvort sem er.

„Ég er tilbúin í hvað sem er, það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það. Maður undirbýr sig auðvitað bara undir hvað sem er.“

ÍBV hefur gengið heldur illa í sumar. Liðið situr í 6. sæti eftir tíu umferðir með aðeins 11 stig og þrjá sigurleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka