Suðupottur þar sem allir hafa orku til að slást

Aníta Hinriksdóttir var dæmd úr leik í gær í 800 …
Aníta Hinriksdóttir var dæmd úr leik í gær í 800 metra hlaupi kvenna eftir stimpingar. Ljósmynd/Loopland Gelderland

„Við vorum bara allar í einum hópi að slást,“ segir Aníta Hinriksdóttir sem var dæmd úr keppni í undanúrslitum 800 metra hlaupsins á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum í Berlín í gærkvöld.

Aníta kom sjötta í mark í sínum riðli, fyrri undanúrslitariðlinum, en hún hafði átt í harðri baráttu við hina sænsku Lovisu Lindh í hlaupinu. Eins og Aníta bendir á var lítið svæði til að athafna sig á hlaupabrautinni enda hlaupið frekar hægt, og á einum tímapunkti fór Lindh út fyrir brautina eftir baráttu við Anítu. Mat dómara virðist hafa verið það að Aníta hafi brotið af sér í því atviki. Íslenski hópurinn sá ekki ástæðu til þess að mótmæla dómnum úr því að hann breytti engu um það hvort Aníta kæmist áfram í úrslitahlaupið.

Þá er þetta bara orðin einhver þrjóskukeppni

„Ég var spurð að því af sænskum blaðamanni eftir hlaupið hvort ég vildi segja eitthvað á móti þessari niðurstöðu, og þá vissi ég nú ekki af dómnum og gat ekki ímyndað mér fyrir hvað hann væri. Ég tók ekki eftir neinu sjálf, nema þá helst á síðustu metrunum þegar við fórum harkalega saman, öxl í öxl, en ég vissi ekki að það hefði verið frekar mér að kenna en henni. En fyrst að ég komst ekki í úrslitin þá skiptir þetta svo sem ekki máli, þó að það sé vissulega meira gaman að fá eitthvert sæti. Úr því að maður var ekki inni í úrslitunum þá er það í raun bara þrjóskukeppni að spá í hvort þessi dómur sé rétt niðurstaða,“ segir Aníta. Þær Lindh hafa oft mæst á hlaupabrautinni:

„Við höfum oft keppt saman og deilt herbergi, og á milli okkar hefur alltaf ríkt heilbrigð samkeppni í rauninni. Ég held að þetta breyti engu um það,“ segir Aníta.

Viðtalið við Anítu má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert