Þóra Helgadóttir, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, hóf fyrirlestur sinn á ráðstefnunni „Gender and Sport“ í Háskólanum í Reykjavík á því að þylja upp glæst afrek sem hún vann á ferlinum. Yfirskrift fyrirlestrarins var „Stelpa í karlaheimi“.
Þóra, sem er fædd árið 1981 og lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki Breiðabliks 1995, segist ekki hafa þulið upp afrekin til að monta sig, heldur væri hún einfaldlega að benda á hvað hún hefði gert á ferlinum, en karlkyns leikmaður hefði ekki þurft að gera þetta.
Hún varð Íslandsmeistari með KR og Breiðabliki og lék sem atvinnumaður í Noregi, Svíþjóð og Ástralíu auk þess sem hún lék í Belgíu samhliða vinnu sem hún fékk þar. Hún komst þrisvar í 8 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu og var þrisvar á topp tíu listanum í kjörinu um íþróttamann ársins.
Þóra rakti eingöngu feril sinn á Íslandi, með félags- og landsliði, en hún spilaði 108 A-landsleiki. „Ég ólst upp í Breiðabliki og var mjög heppin með lið,“ sagði Þóra, en þegar hún steig sín fyrstu skref í boltanum var A-landslið kvenna „í pásu“ og einu fyrirmyndirnar því sterkt Blikaliðið.
Þrátt fyrir að hafa verið heppin með lið var aðstaðan sem kvennaliðinu var boðin upp á í Kópavoginum ekki góð. „Leikmenn þurftu að berjast fyrir því að fá þjálfara sem fékk borgað, fyrir því að fá að æfa og spila á góðum völlum. Það þurfti hreinlega að berjast fyrir tilveruréttinum,“ sagði Þóra.
16 ára gömul var Þóra í fyrsta skipti valin í A-landsliðshópinn og hún sagði að munurinn á karla- og kvennaliðinu hefði verið gríðarlegur. „Karlarnir fengu dagpeninga og spiluðu miklu fleiri leiki. Það sem skipti samt mestu máli var að þeir fengu virðingu og viðurkenningu,“ sagði Þóra.
Skömmu fyrir aldamót sagði Þóra að metnaður forystu KSÍ fyrir landsliðinu hefði verið slæmur. Nýr þjálfari var ráðinn og æfingar fóru fram á slæmum völlum með engum mörkum. „Við vorum látnar gera englahopp í upphitun og aðrar leikfimisæfingar sem flestir telja að henti eldri borgurum,“ sagði Þóra.
Einnig hafi þjálfarinn ekki vitað hvaða stöður leikmenn spiluðu daginn fyrir leik og svo virtist hann ekki vera með nöfn þeirra á hreinu. „Hann notaði líka gamlar glærur frá því að hann þjálfaði karla. „Hann sagði þá einfaldlega: „Gunna, þú ert Siggi þarna,““ sagði Þóra.
Hún benti á að leikmenn hefðu kvartað við KSÍ en sagði að fótboltinn væri að þessu leyti eins og her; maður kvartaði ekki yfir þjálfaranum sínum.
„Það var svo í einni ferðinni sem þjálfarinn varð mjög fullur og reyndi að fá leikmenn upp á herbergið sitt. Eftir það neituðu nokkrir leikmenn að spila aftur fyrir landsliðið undir hans stjórn,“ sagði Þóra.
Hún sagði að í framhaldi af þessu hefðu nokkrir leikmenn fundað með formanni KSÍ. Formaðurinn hefði spennt greipar, hallað sér fram og öskrað á leikmennina og sagt þeim að hann réði öllu og þær engu.
Leikmaðurinn sem hafði sig mest í frammi gegn þjálfaranum var aldrei valinn aftur í landsliðið. Þóra sagðist hafa séð eftir því að hafa ekki gert meira fyrir hana. Þjálfarinn hætti störfum í framhaldi af þessu og sagði að formaður KSÍ hefði sagt honum að hann „gæti aldrei átt síðasta orðið gegn konum“.
„Ég er viss um að það hefði verið tekið mark á kvörtunum karlaliðsins og það væri ekki bara talað um það sem tuð kvenna,“ sagði Þóra.
Árið 2001 vildu landsliðskonur fá fleiri áhorfendur á leiki. Meðalaðsókn var um 500 manns en KSÍ neitaði að aðstoða með því að fara í auglýsingaherferð. Landsliðið tók málin þá bara í sínar hendur og úr varð auglýsingin „Stelpuslagur“. Þar má sjá landsliðskonur á undirfötum, en heilsíðuauglýsing birtist í Morgunblaðinu.
„Áhorfendur á leiknum voru 1.250 í stað 500. Sambandið var ekki ánægt með að við notuðum ekki kostunaraðila þess en frá þessum tíma hefur sambandið séð um auglýsingar fyrir okkur. Næstu auglýsingar voru betur unnar,“ sagði Þóra og glotti.
Að lokum sagði Þóra að hún væri þakklát fyrir allt sem fótboltinn hefði gefið henni. Margt hefði breyst síðan hún var að byrja en þá hefðu konur þurft að hafa fyrir öllu.
„Samt eru metnaðarfullir karlar enn sagðir duglegir en metnaðarfullar konur eru sagðar tuðarar. Vonandi náum við því að konur geti einbeitt sér að sinni íþrótt án þess að það kosti blóð, svita og tár.“