„Ég get tekið undir hvert orð sem hún segir,“ segir Guðlaug Jónsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, um fyrirlestur Þóru B. Helgadóttur á ráðstefnunni „Gender and Sport“ í gær.
Fram kom í fyrirlestri Þóru að þáverandi landsliðsþjálfari hefði í einni landsliðsferðinni verið fullur og reynt að fá leikmenn upp á herbergi til sín.
„Ég varð sjálf ekki vitni að því og heyrði ekki þá umræðu en ég heyrði af sjálfsögðu um þetta í morgunmatnum daginn eftir að þetta hafði gerst, því að við ræddum þetta við stelpurnar,“ greinir Guðlaug frá.
Hún var ein þeirra landsliðskvenna sem neituðu að spila áfram undir stjórn landsliðsþjálfarans.
„Við vorum þarna nokkrar sem fórum á fund með sambandinu og komum með athugasemdir og annað,“ segir hún og nefnir eins og Þóra æfingarnar sem þeim þóttu lélegar.
Guðlaug segir að þær hafi talað fyrir daufum eyrum á fundinum. „Það var kannski lítið tekið mark á þessu og þáverandi formaður ætlaði sér held ég ekkert að gera í málinu. Hann hélt að við myndum bara sætta okkur við þetta. En það má alveg segja að mótmælin höfðu sitt að segja.“
Á þessum tíma var kvennalandsliðið ekki búið að vera lengi starfandi en það hafði farið aftur af stað eftir hlé í byrjun tíunda áratugarins. Þarna voru konurnar nýbyrjaðar að fá dagpeninga. Sjálf hafði hún byrjað spila með meistaraflokki árið 1988 og hélt þá að kvennalandsliðið væri einfaldlega ekki til.
„Við áttum undir högg að sækja, ekki bara hjá knattspyrnusambandinu heldur áttum við allar undir högg að sækja hjá félagsliðunum. Það var alltaf sama baráttan sem átti sér stað þar en þetta er tvennt ólíkt í dag, það er ekki hægt að líkja þessu saman.“
Guðlaug spilaði 65 A-landsleiki á ferli sínum, sem lauk árið 2005. Aðspurð segir hún umgjörðina í kringum kvennalandsliðið hafa sem betur fer breyst, samhliða breyttum tíðaranda, og að hægt sé að hrósa KSÍ og fleirum fyrir það.
Spurð hvort hún hefði frekar viljað vera að spila í dag en á þessum árum kveðst Guðlaug vera þakklát fyrir sína reynslu. „Ég hefði ekkert viljað missa af þessum tíma en ég væri alveg til í að fá þessar bónusgreiðslur sem leikmenn eru að fá í dag. Ég er mjög ánægð fyrir þeirra hönd,“ segir hún og hlær.
„Ég hefði vissulega viljað komast á lokamót líka, það hefði verið gaman.“
Varðandi fyrirlestur Þóru í gær segist hún vera stolt af henni og að hún hafi komið hlutunum vel frá sér.