Þetta var bara brandari

Ásthildur og Þóra B. Helgadætur urðu fyrstu systurnar sem hafa …
Ásthildur og Þóra B. Helgadætur urðu fyrstu systurnar sem hafa verið á listanum yfir tíu efstu íþróttamennina í kjöri íþróttamanns ársins. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég upp­lifði þetta ná­kvæm­lega eins og Þóra lýsti,“ seg­ir fyrr­ver­andi landsliðskon­an Ásthild­ur Helga­dótt­ir. Syst­ir henn­ar, Þóra Helga­dótt­ir, fjallaði á fyr­ir­lestri í gær um landsliðsþjálf­ara sem þekkti ekki nöfn leik­manna og reyndi í einni landsliðsferð að fá landsliðskon­ur með sér upp á her­bergi.

Ásthild­ur var við nám í Banda­ríkj­un­um rétt fyr­ir alda­mót­in en hóp­ur landsliðskvenna fundaði með for­manni KSÍ og kvartaði yfir hegðun og metnaðarleysi þjálf­ar­ans. 

Við stóðum all­ar sam­an þess­ar sem vor­um elst­ar. Ég man vel eft­ir þessu en þetta eru orð í tíma töluð,“ seg­ir Ásthild­ur en eins og Þóra lýsti í gær tók formaður KSÍ á móti þeim með öskr­um.

Ásthildur lék 69 landsleiki og skoraði í þeim 23 mörk.
Ásthild­ur lék 69 lands­leiki og skoraði í þeim 23 mörk. mbl.is/​Golli

Ótrú­lega ófag­leg ráðning

„Miðað við gæðin á liðinu var bara brand­ari að þessi þjálf­ari var ráðinn. Ég held að hver ein­asti leikmaður hefði barið í borðið og sagt eitt­hvað miðað við það sem gekk á,“ sagði Ásthild­ur og bætti við að hún ætti ekki bara við at­vikið þegar þjálf­ar­inn var full­ur í landsliðsferð:

„Hitt er ekki síður al­var­legt; að koma al­veg óund­ir­bú­inn, ekki vera bú­inn að kynna sér neitt og hafa í raun eng­an áhuga á starf­inu,“ seg­ir Ásthild­ur en Þóra lýsti því meðal ann­ars að þjálf­ar­inn hafi mætt með gaml­ar glær­ur og ekki vitað nöfn leik­manna. „Þetta var svo ófag­legt og við vor­um ekki van­ar að vinna þannig,“ seg­ir Ásthild­ur.

Náðu frá­bær­um ár­angri nokkr­um árum áður

Hún bend­ir á að nokkr­um árum áður hafi landsliðið náð frá­bær­um ár­angri þegar þær komust í um­spil um sæti í loka­keppni Evr­ópu­móts­ins 1994. Þá komust ekki nema fjór­ar þjóðir í loka­keppn­ina og ár­ang­ur­inn þá jafn­gild­ir því að kom­ast í 8-liða úr­slit.

„Það var því eins og blaut tuska í and­litið á okk­ur, þegar við vor­um að stefna á að kom­ast í loka­keppni og með gríðarleg­an metnað, að fá þjálf­ara sem virt­ist ekki á sömu bylgju­lengd.

Eft­ir að leik­menn kvörtuðu und­an þjálf­ar­an­um sagði hann upp störf­um en formaður KSÍ sagði þjálf­ar­an­um að hann gæti aldrei unnið bar­áttu við kon­ur í fót­bolta. „Þannig var þetta út­kljáð.“ Í kjöl­far þess fengu leik­menn nei­kvæða um­fjöll­un og Ásthild­ur bend­ir á að það sama hafi verið upp á ten­ingn­um þegar málið var rifjað upp árið 2013.

Bar­átt­an skilaði sér

Ásthild­ur seg­ist ekki vera svekkt þegar hún hugs­ar hversu miklu bet­ur er staðið að landsliði kvenna núna, þó að hún hefði að sjálf­sögðu viljað hafa hlut­ina öðru­vísi. „Við erum ánægðar með hvernig þetta hef­ur þró­ast og erum það já­kvæðar og stolt­ar af því sem við gerðum. Það voru mjög mik­il­væg skref tek­in. Bar­átt­an skilaði sér og það er já­kvætt. Við erum ánægðar fyr­ir hönd stelpn­anna sem eru að spila núna og að ung­ar stelp­ur geti séð framtíð í því að spila fót­bolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka