Þetta var bara brandari

Ásthildur og Þóra B. Helgadætur urðu fyrstu systurnar sem hafa …
Ásthildur og Þóra B. Helgadætur urðu fyrstu systurnar sem hafa verið á listanum yfir tíu efstu íþróttamennina í kjöri íþróttamanns ársins. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég upplifði þetta nákvæmlega eins og Þóra lýsti,“ segir fyrrverandi landsliðskonan Ásthildur Helgadóttir. Systir hennar, Þóra Helgadóttir, fjallaði á fyrirlestri í gær um landsliðsþjálfara sem þekkti ekki nöfn leikmanna og reyndi í einni landsliðsferð að fá landsliðskonur með sér upp á herbergi.

Ásthildur var við nám í Bandaríkjunum rétt fyrir aldamótin en hópur landsliðskvenna fundaði með formanni KSÍ og kvartaði yfir hegðun og metnaðarleysi þjálfarans. 

Við stóðum allar saman þessar sem vorum elstar. Ég man vel eftir þessu en þetta eru orð í tíma töluð,“ segir Ásthildur en eins og Þóra lýsti í gær tók formaður KSÍ á móti þeim með öskrum.

Ásthildur lék 69 landsleiki og skoraði í þeim 23 mörk.
Ásthildur lék 69 landsleiki og skoraði í þeim 23 mörk. mbl.is/Golli

Ótrúlega ófagleg ráðning

„Miðað við gæðin á liðinu var bara brandari að þessi þjálfari var ráðinn. Ég held að hver einasti leikmaður hefði barið í borðið og sagt eitthvað miðað við það sem gekk á,“ sagði Ásthildur og bætti við að hún ætti ekki bara við atvikið þegar þjálfarinn var fullur í landsliðsferð:

„Hitt er ekki síður alvarlegt; að koma alveg óundirbúinn, ekki vera búinn að kynna sér neitt og hafa í raun engan áhuga á starfinu,“ segir Ásthildur en Þóra lýsti því meðal annars að þjálfarinn hafi mætt með gamlar glærur og ekki vitað nöfn leikmanna. „Þetta var svo ófaglegt og við vorum ekki vanar að vinna þannig,“ segir Ásthildur.

Náðu frábærum árangri nokkrum árum áður

Hún bendir á að nokkrum árum áður hafi landsliðið náð frábærum árangri þegar þær komust í umspil um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 1994. Þá komust ekki nema fjórar þjóðir í lokakeppnina og árangurinn þá jafngildir því að komast í 8-liða úrslit.

„Það var því eins og blaut tuska í andlitið á okkur, þegar við vorum að stefna á að komast í lokakeppni og með gríðarlegan metnað, að fá þjálfara sem virtist ekki á sömu bylgjulengd.

Eftir að leikmenn kvörtuðu undan þjálfaranum sagði hann upp störfum en formaður KSÍ sagði þjálfaranum að hann gæti aldrei unnið baráttu við konur í fótbolta. „Þannig var þetta útkljáð.“ Í kjölfar þess fengu leikmenn neikvæða umfjöllun og Ásthildur bendir á að það sama hafi verið upp á teningnum þegar málið var rifjað upp árið 2013.

Baráttan skilaði sér

Ásthildur segist ekki vera svekkt þegar hún hugsar hversu miklu betur er staðið að landsliði kvenna núna, þó að hún hefði að sjálfsögðu viljað hafa hlutina öðruvísi. „Við erum ánægðar með hvernig þetta hefur þróast og erum það jákvæðar og stoltar af því sem við gerðum. Það voru mjög mikilvæg skref tekin. Baráttan skilaði sér og það er jákvætt. Við erum ánægðar fyrir hönd stelpnanna sem eru að spila núna og að ungar stelpur geti séð framtíð í því að spila fótbolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert