Finnski knattspyrnumaðurinn Elias Tamburini hefur gert nýjan samning við Grindvíkinga og leikur áfram með þeim á komandi keppnistímabili.
Tamburini er 23 ára gamall bakvörður eða kantmaður sem kom til liðs við Grindavík um mitt síðasta tímabil og spilaði 10 leiki í seinni umferð Pepsi-deildar karla, alla í byrjunarliðinu, og átti flestar stoðsendingar allra í Grindavíkurliðinu í deildinni á árinu. Hann hefur verið í bandarískum háskóla undanfarin ár en spilaði áður með finnsku liðunum Klubi 04 og HJK Helsinki.
Á Facebook-síðu Grindvíkinga kemur jafnframt að heimamennirnir Marinó Axel Helgason og Sigurjón Rúnarsson séu búnir að semja að nýju við félagið.