Sturla Snær Snorrason, A-landsliðsmaður í alpageinum, tók þátt í svigmótum um helgina í Pass Thurn í Austurríki. Keppt var í tveimur svigmótum en Sturla Snær lauk ekki keppni í seinni ferð á mótinu sem fór fram í gær.
Í dag átti Sturla Snær frábært mót, endaði í 9.sæti og fékk 28.06 FIS stig sem er bæting á heimslista. Sturla Snær hóf leik nr.28 en ræst er eftir FIS stigum á heimslista og náði því að vinna sig upp um mörg sæti.
Fyrri ferðin hans var frábær en eftir hana var hann í 6.sæti, einungis 0,52 sekúndum á eftir efsta manni. Í seinni ferðinni gerði hann smá mistök sem kostuðu hann þrjú sæti þegar uppi var staðið.
Snorri Einarsson hafnaði í 65. sæti í 15 km skíðagöngu, en fyrsta heimsbikarhelgin fór fram í Ruka, Finnlandi nú um helgina. Snorri náði sér ekki á strik, fyrir utan stuttan kafla um miðbik keppninnar.
Hjá Snorra tekur við ferðalag til Lillehammer í Noregi þar sem hann mun taka þátt í næsta heimsbikarmóti. Svokallað „mini tour“ en það samanstendur af þremur keppnum sem allar eru sérkeppnir en á sama tíma er líka verðlaunað fyrir samanlagðan árangur fyrir allar þrjár keppnirnar. Eftir hverja keppni er ræst út eftir árangri fyrri keppna en ekki eftir heimslistastöðu eins og gengur og gerist venjulega.