Blaksamband Íslands hefur valið Kristján Valdimarsson, leikmann BK Tromsø, og Thelmu Dögg Grétarsdóttur, leikmann Nitra, blakfólk ársins. Thelma hreppir hnossið annað árið í röð en árið hefur verið sérlega viðburðaríkt hjá henni.
Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi sem Blaksambandið hélt í hádeginu í dag.
Thelma var fastamaður í íslenska landsliðinu á árinu en það tók þátt í undankeppni Evrópumótsins í haust og heldur keppninni áfram í upphafi næsta árs. Thelma lék með Galina í Sviss fyrri hluta árs en gekk til liðs við eitt sterkasta lið Slóvakíu, Nitra, á haustmánuðum. Liðið er nú í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar og er Thelma stigahæsti leikmaður liðsins.
Kristján hefur árum saman verið fastamaður í íslenska landsliðinu sem m.a. tók þátt í undankeppni EM í haust og leikur lokaleiki sína í janúar gegn Moldóvu og Slóveníu. Kristján hefur leikið með félagsliðum á Norðurlöndunum í nærri áratug, þar af þrjú síðustu tímabil með BK Tromsø. Liðið hafnaði í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar í vor, hlaut silfurverðlaun í bikarkeppninni og brons í NEVA-bikarkeppni Norður-Evrópuliða.
Á blaðamannafundinum var einnig útnefnt úrvalslið fyrri hluta Mizuno-deilda karla og kvenna.
Úrvalslið kvenna er skipað: Rut Gomez, Völsungi, Elísabet Einarsdóttir, HK, Hanna María Friðriksdóttir, HK, Ashley Boursiqout, Völsungi, Edda Björk Ásgeirsdóttir, HK, Heiða Elísabet Gunnarsdóttir, Þrótti Nes., Kristina Apostolova, Aftureldingu. Þjálfari kvennaliða var valinn Borja Gonzalez, Þrótti Nes.
Úrvalslið karla er skipað: Theódór Óskar Þorvaldsson, HK, Miguel Angel Ramos Melero, Þróttir Nes., Stefano Nassini Hidalgo, KA, Mason Casner, KA, Matthew Gibson, Álftanesi, Radoslaw Rybak, Aftureldingu, Ragnar Ingi Axelsson, Álftanesi. Þjálfari karlaliða var valinn Filip Pawel Szewcyk, KA.