„Þau eru alltaf að spyrja um hvað sé í vatninu á Íslandi,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, um áhuga erlendis á íslensku Crossfit fólki. Reykjavik Crossfit Championship, alþjóðlegt Crossfit mót ,verður haldið í Laugardalshöll dagana 3.-5. maí.
Von er á 2-3000 manns til landsins í tengslum við mótið þar sem 30 einstaklingar í kvenna og karlaflokkum auk þess sem 10 lið etja kappi í liðakeppni.
Spurningin sem Katrín Tanja þarf að svara svo oft er þó nokkuð eðlileg í ljósi þessa að fjórum sinnum hafi íslenskar Crossfit konur sigrað á Heimsleikunum í greininni. Alls hafa íslenskir keppendur 13 sinnum náð á verðlaunapall á Heimsleikunum.
Crossfit nýtur mikilla vinsælda víða um heim og keppendur á borð við Annie Mist og Katrínu Tönju eru afar stór nöfn í Crossfit-heiminum, með öfluga styrktaraðila hundruði þúsunda sem fylgja þeim á samfélagsmiðlum. Sara Sigmundsdóttir, sem hefur tvívegis lent í þrðja sæti á heimsleikunum, er til að mynda með 1.3 milljónir fylgjenda á Instagram, Katrín Tanja er með 1.4 milljónir fylgjenda og 983 þúsund manns fylgjast með Annie Mist á sama miðli.
Jafnan er veglegt verðlaunafé veitt fyrir árangur í Crossfit mótum og það verður engin undantekning á því í Laugardalshöllinni, þó skipuleggjendur viðurkenni að ekki sé hægt að keppa við staði eins og Dubai í þeim efnum.
mbl.is var á blaðamannafundi í Laugardalshöllinni í dag þar sem mótið var kynnt og í myndskeiðinu er rætt við helstu Crossfitstjörnur þjóðarinnar ásamt skipuleggjendur. Fyrir neðan má sjá upphitunarmyndband og kynningu á mótinu.