Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu og leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi, er íþróttamaður ársins 2018 eftir að hafa orðið hlutskörpust í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna en kjörinu var lýst í Hörpu í kvöld.
Sara Björk er 28 ára gömul og hlýtur þennan titil í fyrsta skipti en hún hefur verið í hópi tíu efstu í kjörinu sex ár í röð og sjö sinnum alls og tvívegis endað í fjórða sætinu.
Sara varð þýskur meistari með Wolfsburg annað árið í röð, einnig þýskur bikarmeistari annað árið í röð, og komst með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Lyon þar sem Wolfsburg beið lægri hlut í framlengingu. Sara var í lykilhlutverki í liði Wolfsburg, sem er eitt sterkasta félagslið heims, og skoraði mörg dýrmæt mörk fyrir liðið, sérstaklega í Meistaradeildinni.
Hún hefur jafnframt verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu um árabil, hefur gegnt stöðu fyrirliða undanfarin ár, en þar er hún orðin næstleikjahæst frá upphafi með 120 landsleiki og sú sjötta markahæsta með 19 mörk.
Sara hóf ferilinn kornung með Haukum þar sem hún lék fyrst 13 ára gömul með meistaraflokki í 1. deild. Hún fór til Breiðabliks á miðju tímabili 2008 og lék með Kópavogsliðinu í tvö og hálft ár. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar þar sem Sara lék í fimm og hálft ár með Malmö, sem á miðri dvöl hennar þar skipti um nafn og varð að Rosengård. Þar vann hún sænska meistaratitilinn þrisvar.
Sara gekk til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg sumarið 2016. Hún hefur unnið þýska meistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn bæði tímabilin með félaginu og lið hennar er með örugga forystu í deildinni á yfirstandandi tímabili. Wolfsburg komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðasta vor en tapaði í framlengdum leik gegn Lyon frá Frakklandi.